Úthlutað úr Frumkvæðissjóði Sterkra Stranda 2022

Styrkjum úr byggðaþróunarverkefninu Sterkar Strandir var úthlutað við hátíðlega athöfn í gær á Sauðfjársetrinu á Ströndum.

Það voru 22 umsóknir sem bárust og 12 verkefni fengu styrk. Það má segja að mikið sé um hugmyndir og nýsköpunarvilja á Ströndum.

Heildarfjárhæð styrkumsókna nam kr. 35.176.345,- en til ráðstöfunar voru 10.850.000.

Eftirtalin verkefni hlutu styrk:

Guðfinna Lára Hávarðardóttir og Ágúst Helgi Sigurðsson – Garðávaxtarækt á Ströndum

Markmið verkefnisins er að vélvæða framleiðslu garðávaxta í Stóra-Fjarðarhorni og tryggja þannig að hægt sé að framleiða gæðavöru með góðu afhendingaröryggi fyrir Strandamenn sem og aðra landsmenn.

Styrkur: 2.900.000 kr.

Hafgustur ehf – Fiskvinnsla og krabbaverkun

Um er að ræða standsetningu á vannýttu iðnaðarhúsnæði til nota undir fisk- og krabbavinnslu. Lengi hefur vantað fiskvinnslu á Hólmavík, og hér er á ferðinni skemmtilegt verkefni til að styðja við sjávarútveginn á staðnum.

Styrkur: 2.000.000 kr.

Galdur brugghús – Galdur brugghús

Verkefnið snýst um að taka næstu skref í uppsetningu brugghúss á Hólmavík og standsetningu húsnæðis fyrir brugghúsið.

Styrkur: 1.600.000 kr.

Sauðfjársetur á Ströndum – Afmælisdagskrá Sauðfjársetursins

Í tilefni af 20 ára afmæli Sauðfjárseturs á Ströndum árið 2022 er ætlunin að halda úti viðamikilli afmælisdagskrá allt árið, auk sérverkefna eins og nýrra sýninga og útgáfu bókar. Viðburðirnir verða tengdir saman undir merkjum afmælisdagskrárinnar í allri markaðssetningu og kynningu. Sauðfjársetrið hefur lengi verið öflugt í viðburðahaldi, en dagskráin hefur aldrei verið jafn viðamikil. Samtals hafa 68 viðburðir verið settir á afmælisdagskrána á árinu 2022.

Styrkur: 800.000 kr.

Golfklúbbur Hólmavíkur – Golfhermir

Markmið verkefnisins er að kaupa háþróaðan golfhermi til að efla starfsemi félagsins, bæði með því að gera framboð iðkunar íþróttarinnar fjölbreyttara allan ársins hring og með því að draga nýja félaga inn í starfsemina.

Styrkur: 600.000 kr.

Strandagaldur ses – Galdrastafir og tákn í húðflúrum

Markmið verkefnisins er að setja upp sýningu um hvernig íslenskir galdrastafir og tákn koma inn í húðflúrun. Þetta er tímabundin sýning sem bætist við Galdrasýninguna og verður öllum opin. Afrakstur verkefnisins er sýning sem mun standa í 1 til 2 ár, þrír viðburðir sem verða gjaldfrjálsir og sýningarskrá sem verður seld.

Styrkur: 550.000 kr.

Áratak ehf – Náttúruskoðun á Kajak

Markmiðið er að leigja út kajaka til náttúruskoðunar á Broddanesi. Aukin afþreying fjölgar ferðamönnum og lengir dvöl þeirra á svæðinu. Markmiðið er að geta leigt bátana út a.m.k. 30 daga yfir sumarið.

Styrkur: 500.000 kr.

ÓBH útgerð – Sjóstangaveiði á Ströndum

Verkefnið snýst um að bjóða fólki uppá að fara í Sjóstangaveiði á Ströndum en sú viðbót við vaxandi og fjölbreytta þjónustu við ferðamenn myndi hjálpa til við að laða fleira fólk á Strandir. Styrkur veittur til gerðar viðskiptaáætlunar.

Styrkur: 450.00 kr.

Viðgerðir Vignis ehf – Bilanagreiningatölva

Markmið verkefnisins er að festa kaup á bilanagreiningatölvu fyrir eina starfandi vélaverkstæðið í Strandabyggð. Tölva þessi greinir ekki aðeins bilanir heldur geta bílaumboð tengst inn á hana og talað við verkstæðið. Fjárfesting af þessu tagi eflir fyrirtækið og gerir því kleift að annast fjölbreyttari viðgerðir á staðnum, auk þess sem betur er hægt að aðstoða vegfarendur sem lenda í vandræðum á vegum úti.

Styrkur: 420.000 kr.

Arnór Gunnarsson – Hljóðverkshúsið

Verkefnið snýst um framleiðslu á hljóðefni til dreifingar á streymisveitum. Styrkveiting er til handrita- og dagskrárgerðar.

Styrkur: 400.000 kr.

Sýslið verkstöð – Sýnileiki Stranda

Markmið verkefnisins er að vera áfram með fréttir af fyrirtækjum og ferðaþjónustu með það fyrir augum að ná athygli bæði heimafólks sem og annarra út fyrir svæðið.

Styrkur: 380.000 kr.

Þráinn Ingimundarson – Skilti á Viðeyjarhúsið

Markmið verkefnisins er að setja upp söguskilti við Viðeyjarhúsið, en í því er Gistihús Hólmavíkur er rekið í dag, sem gerir merkilegri sögu hússins skil fyrir heimamenn jafnt og ferðamenn.

Styrkur: 250.000

DEILA