Þorrablót í einmánuði

Síðustu vikur hafa nemendur 10. bekkjar í Grunnskólanum á Ísafirði verið á stífum dansæfingum hjá þeim Hlíf Guðmundsdóttur og Sveinbirni Björnssyni.

Tilefnið er þorrablót 10. bekkjar sem haldið verður föstudaginn 1. apríl en á því verða einmitt dansaðir gömlu dansarnir. Foreldrar hafa einnig fengið danskennslu svo allir hafa fengið innsýn í þjóðdansahefðina og geta notið þess að dansa saman á ballinu.

10. bekkur 2020

Ríflega 40 ára hefð er fyrir því að foreldrar barna í 10. bekk GÍ bjóði börnum sínum á þorrablót í skólanum. Fyrsta þorrablótið í GÍ var haldið 1981 en blótið féll niður í fyrra vegna heimsfaraldurs og fresta þurfti því í ár vegna fjöldatakmarkana. Þorrablótsnefnd og kennarar voru þó ekki af baki dottnir og bjóða því einfaldlega til þorrablóts í einmánuði.

Á blótinu verður dansað við harmonikkuundirleik Árna Brynleifssonar, kennarar og foreldrar hafa undirbúið skemmtiatriði og fjöldasöngurinn er að sjálfsögðu á sínum stað. Hefð er fyrir því að stúlkurnar mæti í þjóðbúning og margir fyrrum nemendur hugsa með hlýju til baka og gleði yfir því að hafa upplifað að fara á blót í skólanum sínum. Þetta er hefð sem bæði nefndin og kennarar vildu að börnin fengju að upplifa svo nú er einfaldlega boðið til blóts á vordögum

DEILA