Suðureyri – olíuupptökutæki ræst í tjörninni og Suðureyrarhöfn í dag

Aðgerðastjórn fundaði að morgni 9. mars vegna olíumengunar á Suðureyri. Á fundinum voru fulltrúar Umhverfisstofnunar, Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Orkubúsins, hafna Ísafjarðarbæjar, umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar og Slökkviliðs Ísafjarðarbæjar.

Farið var yfir aðgerðir sem ráðist hefur verið í nú þegar, en meðal annars var olíutankurinn mokaður upp og jarðvegur umhverfis tankinn fjarlægður. Einnig voru lagnir og brunnar sem taka við affalli úr heitavatnstanki sundlaugar kannaðir en í ljós kom að þar var töluverð olía. Grisjur voru settar í tjörnina og höfnina á Suðureyri, auk helstu brunna og var meiri hreinsunarbúnaður pantaður að sunnan. Meindýraeyðir var fenginn til að meta ástand fugla sem höfðu lent í olíu.

Á fundinum kom fram að sérfræðingar Verkís vinna nú að aðgerðaráætlun til lengri tíma vegna hreinsunar svæðis.

Í dag, 9. mars, verða olíuupptökutæki (s.k. skimmer-dælur) ræst í tjörninni og Suðureyrarhöfn. Fylgst verður með grisjum og skipt um þær um leið og þarf. Þá verður farið í mælingar á mengun til að ná utan um umfang og dreifingu á svæðinu. Niðurföll og lagnir verða athugaðar daglega. 

Íbúar á Suðureyri eru beðnir um að vera vakandi fyrir loftgæðum á svæðinu næstu daga. Mengunarinnar er mest vart þegar veður er lygnt en minna þegar hvasst er í veðri. Í logni er mælt með eftirfarandi:

  • Dvöl innanhúss með lokaða glugga og slökkt á loftræstingu veitir verulega vörn fyrir mengun.
  • Hækka í kyndingu.
  • Lungna- og hjartasjúklingar hafi lyf sín tiltæk.
  • Forðast líkamlega áreynslu utandyra.
  • Athugið að rykgrímur veita enga vörn gegn gasmengun.
DEILA