Stjórnvöld hvött til að lækka álögur sínar á bensín tímabundið

Hækk­un á eldsneytis­verði á Íslandi undanfarið virðist vera í bein­um tengsl­um við mikl­ar breyt­ing­ar á heims­markaðsverði á olíu og virðist álagn­ing olíu­fyr­ir­tækj­anna sjálfra ekki hafa hækkað.

„Meðalálagn­ing olíu­fyr­ir­tækja miðað við heims­markaðsverð á olíu það sem af er mars­mánuði er aðeins lægri en meðalálagn­ing árs­ins,“ seg­ir Run­ólf­ur Ólafs­son fram­kvæmd­ar­stjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB. Ekki er því rétt sem oft er haldið á lofti upp á síðkastið að olíu­fyr­ir­tæk­in séu að hækka verð um­fram hækk­un á heims­markaði.

Runólfur segir sem dæmi hafi verð á bens­íni frá ára­mót­um hækkað um 35 kr hjá N1 en um 25 krón­ur hjá Costco. Ef horft er á verðhækk­un frá fyrsta janú­ar 2021 hef­ur verð hækkað um 77 krón­ur hjá N1 en 72 krón­ur Hjá Costco. Er því til langs tíma um að ræða svipaðar hækk­an­ir hjá báðum fyr­ir­tækj­um.

Skelfileg verðþróun

,,Auðvitað er um skelfilega verðþróun að ræða,“ segir Runólfur um hækkandi heimsmarkaðsverð á olíu og en bensínverð ríkur nú upp úr öllu valdi í kjölfar innrásarstríðs Rússa. Þetta sé verðsveifla sem ekki hafi sést í Evrópu í manna minnum. Runólfur segir að enn ógnvænlegri verðþróun sjáist á dísilolíu. Þetta mun hafa áhrif á rekstur heimilanna, rekstur fyrirtækja, hafa áhrif á aðdrætti, flutninga og flug.

FÍB hefur sent áskorun til stjórnvalda þar sem kallað er eftir að stjórnvöld dragi tímabundið úr skattheimtu á olíu til að koma í veg fyrir verðbólguskot og lágmarka skaðleg áhrif á þjóðlífið.

Um það bil helmingur af hverjum seldum lítra á dælu hér er skattur í ríkissjóð þannig að það er ekkert óeðlilegt að stjórnvöld komi núna að borðinu og lækki allavega tímabundið skatta. Fordæmi séu fyrir slíku.

DEILA