Opnun sýningar um Húsmæðraskólann Ósk

Fimmtudaginn 24. mars kl. 17 verður opnuð sýning um Húsmæðraskólann Ósk í húsinu við Austurveg sem nú hýsir Tónlistarskóla Ísafjarðar. Húsið var teiknað af Guðjóni Samúelssyni fyrir Húsmæðraskólann árið 1948 og var skólinn í því húsi allt þar til að skólahald lagðist af.

Húsmæðraskólinn Ósk var stofnaður árið 1912 á Ísafirði og starfræktur til 1990. 

Sögusýningin sem opnuð verður er um fjölbreytta starfsemi Húsmæðraskólans og kennir þar ýmissa grasa. Skólaspjöld úr tæplega 80 ára sögu skólann skipa þar verðugan sess.

Til opnunarinnar er boðið öllum fyrrverandi nemendum og kennurum skólans svo og öðrum velunnurum.

DEILA