Opinn fundur um stefnu Íslands í norðurslóðamálum

Opinn fundur um framkvæmdaáætlun um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða verður haldinn í Háskólanum á Akureyri og í fjarfundi þann 31. mars nk. 8:30-16:00.

Ný stefna Íslands í málefnum norðurslóða var samþykkt með þingsályktun á Alþingi 19. maí 2021. Í stefnunni er meðal annars kveðið á um að utanríkisráðherra móti áætlun um framkvæmd norðurslóðastefnunnar í samráði við aðra hlutaðeigandi ráðherra.

Af þessu tilefni efnir utanríkisráðuneytið til opins fundar með hagsmunaaðilum í Háskólanum á Akureyri og í fjarfundi þann 31. mars nk. 8:30-16:00. Fundurinn er mikilvægur liður í að efla innlent samráð og samstarf um málefni norðurslóða og tækifæri fyrir sérfræðinga og hagsmunaaðila úr öllum áttum til að hafa áhrif á framtíð Íslands á norðurslóðum og koma sjónarmiðum og hugmyndum á framfæri.

Í framhaldi af fundinum gefst áhugasömum jafnframt kostur á að taka þátt í starfi þemahópa sem munu í framhaldi af opna fundinum fjalla um afmarkaða liði stefnunnar og skila tillögum til utanríkisráðuneytis Íslands. Þemun verða eftirfarandi:

A. Alþjóðlegt samstarf og skuldbindingar

B. Loftslagsbreytingar, vistkerfi og mengunarvarnir

C. Samfélag og innviðir

D. Uppbygging og framlag til málefna norðurslóða

E. Leit og björgun, fjarskipti, björgunarklas

DEILA