Ókeypis ráðgjöf um lítil sláturhús á lögbýlum

Bændurnir í Birkihlíð í Skaga­firði, þau Ragnheiður Lára Brynjólfsdóttir og Þröstur Heiðar Erlingsson, ætla að bjóða þeim bændum sem hafa hug á að sækja um leyfi til að reka örsláturhús ókeypis ráðgjöf um ferlið.

Þau voru í fararbroddi þeirra bænda sem börðust fyrir þessum réttindum, sem leiddi til þess að gefin var út reglugerð í maí síðastliðnum sem heimilar rekstur lítilla sláturhúsa heima á lögbýlum.

Aðeins fjórar umsóknir bárust Matvælastofnun um slíkt rekstrarleyfi fyrir síðustu sláturtíð. Mun ástæðan liggja að hluta til í því að bændur mikli fyrir sér að ráðast í breytingar á húsakosti sem slíku ferli fylgir og skriffinnskan vaxi þeim í augum.

Í viðtali við Bændablaðið segir Ragnheiður hugmyndina vera að halda fjarfundi með þeim bændum sem áhuga hafa. „Við munum miðla af okkar reynslu og fara yfir þær kröfur sem gerðar eru til þeirra sem sækja um. Síðan eru það litlu hlutirnir sem maður kannski gleymir en þarf að hafa á hreinu; þarf að nota hæklajárn og hvar fær maður það, þarf hnífahitara eða má nota eldavél? Hvað þarf marga bala og þurfa þeir að vera sérstaklega stórir? Svona praktískir hlutir sem maður kannski fattar ekki að vanti fyrr en í lokinn og reyndar ýmislegt annað. Ætlunin er að byrja núna um miðjan mars og drífa þetta svolítið áfram fram að sauðburði. “

DEILA