Minjavernd selur Hótel Flatey

Á heimasíðu Minjaverndar er greint frá því að búið sé að selja Hótel Flatey og er vísað í frétt Vísis. Ekki kemur fram hver kaupandinn er. Bæði er um að ræða rekstur og húsakost en til stendur að halda áfram gistirekstri og ferðaþjónustu á svæðinu.

Vísir hefur eftir Þorsteini Bergssyni framkvæmdastjóra Minjaverndar að fleiri en einn aðili hafi sýnt eignunum áhuga en hótelið er staðsett í miðju gamla þorpinu í Flatey.

Gengið var frá kaupsamningi í lok janúar. Hótelið sjálft sem heitir Stóra pakkhús er byggt árið 1908 en auk þess er um að ræða Samkomuhúsið, byggt árið 1900, og Eyjólfspakkhús frá 1908.

Árið 2019 voru svo byggð starfsmannahús ásamt geymslu og bílskúr. Alls er um að ræða 678,3 fermetra.

Eignirnar hafa verið í eigu Minjaverndar sem hefur staðið að umfangsmiklum endurbyggingum á húsunum. Húsin voru áður í eigu Flateyjarhrepps sem fékk þau úr þrotabúi gamla Íslandsbanka.

Reykhólahreppur átti forkaupsrétt að eignunum en sveitarstjórn tók þá ákvörðun að nýta sér hann ekki.

DEILA