Merkilegt manntal frá árinu 1952

Opna úr manntalinu 1952 sem sýnir skráningu fyrir heimilisfólk á Hrafnseyri í Arnarfirði. Manntalsbækurnar eru samtals 76 talsins og blaðsíður þess telja hátt í 19.000.

Þjóðskjalasafn Íslands og Þjóðskrá Íslands hafa undirritað samstarfssamning um afhendingu og skönnun á manntalinu 1952.

Markmið samningsins er tvíþætt, annars vegar að tryggja varðveislu frumrita manntalsins í Þjóðskjalasafni og gera myndir af því aðgengilegar á vefnum. Hins vegar er markmiðið að safna upplýsingum og skrá verkferla við skráningu, skönnun og miðlun manntalsins. Þær upplýsingar munu nýtast Þjóðskjalasafni við áætlanagerð og vinnslu sambærilegra verkefna en aukin áhersla er á miðlun heimilda yfir vefinn á vegum safnsins.

Manntalið 1952 var tekið í þeim sérstaka tilgangi að búa til spjaldskrá yfir alla landsmenn og var það í raun grunnur að því sem síðar kallaðist þjóðskrá. Sérstök bráðabirgðalög voru sett um manntalið haustið 1952 og var manntalsdagur ákveðinn 16. október 1952.

Manntalsskýrslum var dreift á öll heimili í landinu og var hver húsráðandi skyldugur til að fylla hana út rétt og nákvæmlega. Þeim var svo safnað saman og komið til Hagstofu Íslands. Hagstofan hélt utan um mannalið og spjaldskrána (þjóðskrá) fyrstu árin.

Árið 1962 var sérstakri stofnun, Þjóðskrá Íslands, komið á stofn og var hún rekin sem sérstök deild innan Hagstofunnar og var grunnur hennar upplýsingar úr manntalinu 1952. Árið 2006 færðist Þjóðskrá Íslands yfir til dómsmálaráðuneytisins og árið 2010 voru Fasteignamat ríkisins og Þjóðskrá sameinuð undir heiti Þjóðskrár Íslands.

Þjóðskrá Íslands hefur nú afhent Þjóðskjalasafni manntalið til varðveislu og fer það nú í frágang, skráningu og skönnun í safninu. Stefnt er að því að verkefninu verði lokið í maí á þessu ári og manntalið verði þá birt á vef Þjóðskjalasafns Íslands.

DEILA