Meiri kostnaður við smábáta

Fiskistofa vekur athygli á því að frá og með 1. mars nk. mun Fiskistofa ekki lengur útvega afladagbækur eða reka stafrænt aflaskráningarforrit og frá og með 1. apríl nk. verður það óvirkt.

Öllum er frjálst að skrifa hugbúnað sem getur skilað aflaupplýsingum til  Fiskistofu.

Einnig má benda á að Trackwell hefur þróað smáforrit þar sem hægt er að færa aflaskráningu og senda til Fiskistofu. Þeir aðilar sem vilja nýta sér þann möguleika er bent á að sækja það forrit eftir 1. mars nk. en fyrir 1. apríl segir í tilkynningu frá Fiskistofu.

Landssamband smábátaeigenda mótmælir hins vegar þeirri fyrirætlun Fiskistofu að kostnaður vegna lögboðinna skila á upplýsingum til Hafrannsóknastofnunar og Fiskistofu sem hingað til hefur verið greiddur af hinu opinbera sé velt yfir á smábátaeigendur og telur sambandið að sá kostnaður geti numið tugum þúsunda.

Fiskistofa hefur svarað Bæjarins besta og segir það ekki hlutverk Fiskistofu að sjá útgerðum fyrir gjaldfrjálsum hugbúnaði.

Fiskistofa bendir á að stofnunin hafi engar lagalegar skyldur til að sjá þeim fyrir ókeypis hugbúnaði heldur sé hlutverk Fiskistofu að taka við upplýsingum sem nýtast atvinnugreininni. Kostnaður einstaka notenda við notkun hugbúnaðar við aflaskráningu sé auk þess lítill, eða frá 5600 til 67.000 krónum á ári eftir fjölda landanna. Líkur séu á að kostnaðurinn gæti lækkað enn frekar þar sem Fiskistofa hefur sett upp almenna vefþjónustu  sem öllum er frjálst að tengja hugbúnað á móti til stafrænna skila á rafrænni afladagbók.

DEILA