Matvælastofnun hefur skoðað óhapp við fiskeldi í Dýrafirði í byrjun árs 2022

Dýrafjörður. Mynd: Baldur Smári Einarsson.

Tilkynning barst frá Arctic Sea Farm til Matvælastofnunar, þann 19. janúar 2022,  um að aukin afföll væru að eiga sér stað á eldissvæðinu við Haukadalsbót í Dýrafirði. Matvælastofnun hóf þá þegar eftirgrennslan og óskaði eftir upplýsingum um heilbrigðisástand og niðurstöður eftirlits dýralækna í eldisstöðvum Arctic Sea Farm í Dýrafirði.

Fyrirtækið Blár Akur ehf., sem sérhæfir sig í heilbrigðisþjónustu í fiskeldi, var með dýralækna á staðnum og gaf út þá skýringu að í byrjun janúar hefði orðið vart við minni átlyst í hluta stöðvarinnar við Haukadalsbót. Um svipað leyti varð talsvert fall í sjávarhita og breytingar höfðu einnig verið gerðar á fóðurtegund. Afföll höfðu fram að því verið lítil, eða 0,25% á allri staðsetningunni. Við þetta hitastig sjávar tekur það fiskinn dágóðan tíma að ná upp lyst auk þess sem allir lífeðlisfræðilegir ferlar taka lengri tíma, svo sem eins og sáragróandi. Tekin voru vefjasýni til rannsóknar á Keldum. Í niðurstöðum kom fram fremur slæmt ástand á tálknum og vefjabreytingar í hjarta og blóðsókn í önnur líffæri bentu til þess að fiskurinn væri með hjarta- og vöðvabólgu (HSMI) sem orsakast af veirunni Piscine Reo Virus. Veira þessi er útbreidd, bæði í eldi og náttúrulegu umhverfi og telst ekki vera tilkynningarskyld.

Í kjölfarið kom tímabil með mörgum óveðursdögum sem gerðu ástandið verra og afföll fóru að aukast bæði á eldissvæðinu við Haukadalsbót og Eyrarhlíð II. Í eftirliti 23. janúar var niðurstaðan eftir, klíníska skoðun, vefjasýna og veirusýna, að rekja mætti afföllin til nokkurra megin þátta. Um væri að ræða stóran lax í nokkuð miklu magni með tilliti til lífmassa og sjávarhiti væri sérstaklega lágur og veður og sjólag vont. Hluti af fiskinum hafði verið handleikinn við flutninga og lúsaböðun í nóvember 2021. Þessir ytri þættir, samhliða minni afköstum hjartavöðvans í laxinum vegna krónískrar HSMI sýkingar og tálknabólgu gerðu laxinn sérstaklega viðkvæman fyrir streitu og hnjaski. Við slíkar aðstæður er hætt við roðskemmdum samfara nuddi við nótina og í kjölfarið missir fiskurinn stjórn á seltujafnvægi og umhverfisbakteríur eiga greiðari leið að óvörðu holdi.

Strax í janúar var hafist handa við að leita allra ráða til að flýta enn betur slátrun og Matvælastofnun gaf samþykki fyrir komu sláturskipsins Norwegian Gannet. Skipið var komið til hjálpar mánudagskvöldið 14. febrúar og fór af landi brott 4. mars sl. Öllum fiski sem slátrað var um borð í Norwegian Gannet var landað á Bíldudal til pökkunar. Sláturhúsið á Bíldudal tók einnig þátt í slátrun á fiski úr Dýrafirði á sama tíma.

Gert var ráð fyrir meiri slátrun myndi eiga sér stað upp úr báðum eldissvæðunum í Dýrafirði í nóvember og desember 2021. Sláturhúsið á Bíldudal hefur að jafnaði slátrað laxi frá bæði Arnarlaxi og Arctic Sea Farm á liðnum árum en með aukinni framleiðslu er farið að reyna verulega á afkastagetu vinnslunnar. Að auki höguðu aðstæður sér þannig að ekki var hægt að fullnýta sláturafköst á Bíldudal m.a. vegna Covid veikinda starfsmanna sláturhússins. Eins var sláturhúsið á Djúpavogi í fullri nýtingu vegna slátrunar á laxi úr Reyðarfirði. Ekki var heldur mögulegt að fá sláturskipið Norwegian Gannet fyrr vegna anna hjá skipinu.

Um mánaðarmótin febrúar/mars voru afföllin í Dýrafirði orðin 2.498 tonn. Búið var að slátra 4.081 tonni á sama tíma.

Matvælastofnun telur að þessi afföll hafi ekki átt sér stað vegna háttsemi rekstraraðila, heldur hafi ýmsir utanaðkomandi og samhangandi þættir orsakað þessi afföll.  

DEILA