Lyfjakostnaður lækkar hjá lífeyrisþegum, börnum og ungmennum

Hámarksgreiðsla aldraðra, örorkulífeyrisþega, barna og ungmenna í fyrsta þrepi greiðsluþátttökukerfis lyfja lækkar um rúm 20%, úr 14.000 kr. í 11.000 kr., samkvæmt nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra sem tekur gildi 1. apríl nk.

Breytingin er í samræmi við markmið stjórnvalda um að draga úr greiðsluþátttöku fólks fyrir heilbrigðisþjónustu með áherslu á bæta stöðu viðkvæmra hópa og jafna aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu. Framlag ríkissjóðs vegna þessarar breytingar nemur um 270 milljónum króna á ársgrundvelli.

Gildandi greiðsluþátttökukerfi vegna lyfja var innleitt árið 2013. Það byggist á þrepaskiptri greiðsluþátttöku þar sem hver einstaklingur greiðir hlutfallslega minna eftir því sem lyfjakostnaður hans eykst á tólf mánaða tímabili.

Í fyrsta þrepi greiðsluþátttökukerfisins greiðir einstaklingur lyf sín að fullu. Í öðru þrepi greiða sjúkratryggingar 85% kostnaðarins á móti 15% hlut sjúklings og í þriðja þrepi greiða sjúkratryggingar 92,5% á móti 7,5% hlut sjúklings. Ef heildarkostnaður einstaklings nær ákveðnu hámarki, sem er 62.000 kr. hjá almennum notendum en 41.000 kr. hjá lífeyrisþegum og börnum og ungmennum yngri en 22 ára, fellur greiðsluþátttaka þeirra niður og sjúkratryggingar greiða lyfjakostnaðinn að fullu.

Fyrsta greiðsluþrepið, þar sem einstaklingur greiðir lyfjakostnaðinn að fullu sjálfur, hefur reynst þeim tekjulægstu þungt í skauti. Með þeirri breytingu sem leiðir af reglugerð ráðherra lækkar sá kostnaður eins og fyrr segir úr 14.000 kr. í 11.000 kr. hjá þeim sem eru 67 ára og eldri, örorkulífeyrisþegum og börnum og ungmennum yngri en 22 ára. Með þessu er dregið úr líkum á því að tekjulágir einstaklingar fresti eða sleppi því að kaupa lyf sem eru þeim nauðsynleg.

DEILA