Hvítur Snjótittlingur í Súðavík

Ljósmyndari: Cristian Gallo

Á vef Náttúrustofu Vestfjarða er sagt frá því að sjaldgæfur hvítur snjótittlingur hafi haldið til í Súðavík síðastliðnar tvær vikur í föruneyti 400 fugla sömu tegundar.

Fyrir utan nokkrar dökkar skellur á vængjum og baki er fuglinn nánast alhvítur, fætur appelsínugulir ólíkt dökkum fótleggjum tegundarinnar og augun dökk. Af þessu má áætla að hvíti liturinn stafi ekki af albínisma sem orsakast af algjörum skorti litarefnisins melanín, en það veldur alhvítum líkama, ljósbleikum fótleggjum og rauðum augum.

Hvíti liturinn stafar líklega af leukisma (áður fyrr oft nefndur hálf-albínismi) sem dregur úr getu húðar, fjaðra og í einhverjum tilfellum goggs til að taka upp melanín sem veldur brúnum og svörtum lit, en hefur engin áhrif á carotenoid sem veldur gulum og appelsínugulum lit. Leukismi hefur engin áhirf á lit augna.

Leukismi er algengari meðal fugla en albínismi. Leukismi hefur mörg stig og birtingarform, allt frá nokkrum hvítum skellum yfir í nær alhvítan líkama.

DEILA