Hugleiðingar um skipulagsvald sveitarfélag

Tilefni þessarar samantektar er bókun bæjarráðs Sveitarfélagsins Vogar dags. 3. mars 2022 vegna áforma um útgáfu á framkvæmdaleyfis til Landsnets vegna uppbyggingu Suðurnesjalínu 2.

Líkt og fram kemur í bókun sveitarfélagsins byggir skipulagsvald sveitarfélaga á lögum nr. 123/2010 . Í greinargerð með lögunum er í II. hluta greinargerðar að finna eftirfarandi: Samkvæmt þeim fer umhverfisráðherra með yfirstjórn skipulagsmála á landsvísu með aðstoð Skipulagsstofnunar. Sveitarstjórnir fara með skipulagsmál sveitarfélaga. Í skipulags- og byggingarlögum er einnig gert ráð fyrir skipulagsgerð á svæðisstigi, þrátt fyrir að ekki sé til staðar samsvarandi stjórnsýslustig. Þannig geta sveitarfélög unnið að svæðisskipulagi með öðrum sveitarfélögum og jafnframt fer sérstök samvinnunefnd með svæðisskipulagsmál á miðhálendinu. Þessi texti gefur ekki tilefni til vafa en allt að einu segir að ráðherra fari með yfirstjórn. Hvergi er getið um heimild til þess að víkja frá þessu ferli.

Mótmæli sveitarfélagsins lúta ekki að andstöðu við lagningu Suðurnesjalínu 2, heldur þeirri staðreynd að með veitingu framkvæmdaleyfis til lagningar Suðurnesjalínu 2 í lofti um skipulagssvæði sveitarfélagsins er virt að vettugi skipulagsvald Sveitarfélagsins Voga. Framangreint starfsleyfi verður lagt fyrir með setningu laga, mál nr. 353. á 151. löggjafarþingi sem er yfirstandandi löggjafarþing. Ágreiningur stendur um útfærslu en ekki málið í heild.

Tónninn sem sleginn er með slíkri lagasetningu fer í andstöðu við þrígreiningu valds sem rekja má aftur til hugmynda Montesquie baróns (18.1689-10.2.1755), en hugmyndafræði þeirra ríkja sem við samsömum okkur með hefur verið ríkjandi um þrígreiningu ríkisvalds. Hugmyndin gengur út á það að löggjafarvald sé eitt, framkvæmdavald annað og dómsvald standi svo eitt og öll óháð hverju öðru sem framast er unnt. Ísland er eitt þeirra ríkja sem þannig skipa sínum stjórháttum og kveður m.a. stjórnarskráin íslenska á um þessa þrígreiningu valds. Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 segir í 2. gr. um þrígreiningu valdsins:

Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.

Meðan stjórnaraskrá er óbreytt stendur þetta ákvæði óhaggað og tekur af vafa hvað sem líður duttlungum ráðherra og stjórnvalda, enda sækja sveitarfélögin vald sitt í ákvæði stjórnarskrár. Svo segir í 78. gr. stjórnarskrár:

Sveitarfélög skulu sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Tekjustofnar sveitarfélaga skulu ákveðnir með lögum, svo og réttur þeirra til að ákveða hvort og hvernig þeir eru nýttir.

Hér er þetta ljóst, að meðan lögum hefur ekki verið breytt ráða sveitarfélögin málefnum sínum sem kveðið er á um í lögum og þar með talið skipulagsvald sem getið er hér framar. Samskipti sveitarfélaga og ríkis eiga að vera á grundvelli þessarar skiptingar. Að öðrum kosti er verið að taka sér vald á kostnað annars í skilningi laga og stjórnarskrár.

Það er hættuleg þróun að alþingi eða einstaka ráðherrar taki sér vald sem á undir verksvið sveitarfélaga. Skemmst er að minnast þeirrar viðleytni samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, með fulltingi Sambands íslenskra sveitarfélaga, að ráðast í sameiningar sveitarfélaga og lögfesta ákvæði um

lágmarksfjölda í hverju sveitarfélagi. Unnt hefði verið að útfæra ákvæði um tilskilinn lágmarks íbúafjölda en ekki að skikka viðkomandi sveitarfélög til sameiningar meðan ekki var kveðið á um það í sveitarstjórnarlögum. Sá réttur verður ekki tekinn af íbúum viðkomandi sveitarfélaga enda skipað svo með lögum. Enda stóðu því til fulltingis Evrópuráðssamningur um tilvistarrétt og sjálfsstjórn sveitarfélaga. Var enda niðurstaða þeirra viðleytni brotlendin.

Þrátt fyrir stjórnarsáttmála þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr við völd, sem m.a. gengur út á að einfalda ferlið við uppbyggingu innviða íslensks samfélags, verður að virða það lagaumhverfi sem ríkir um samskipti sveitarfélaga og ríkisins. Þeirrar viðleytni til valdsækni á svið sveitarfélaga sér þar stað, bæði með breyttri skipan ráðuneyta og áformum um breytingar á lögum og reglugerðum í því tilliti að gera ferlið auðveldara þegar kemur að umdeildum áformum um virkjanir og dreifikerfi raforku.

Enn sem fyrr verður ferlið að lúta ákveðnum lögmálum og ekki dugir að fara gegn skýrum ákvæðum laga sem boða það að sveitarfélögin ráði málefnum sínum sjálf. Slík viðleytni telst til ólaga þegar áform fara gegn gildandi lögum. Það er forn regla sem kveður á um stjórnskipan landsins. Með lögum skal land byggja, en ólögum eyða. Þessa meginreglu um stjórnskipan landsins ber að halda í heiðri ef vel á að fara.

Vakin skal athygli á því að áform eru uppi um að byggja upp dreifikerfi raforku fyrir Vestfirðina alla og er einn sá liður gildandi kerfisáætlun Landsnets. Þá hafa einnig komið fram hugmyndir um virkjanakosti á Vestfjörðum okkur til heilla. Upphaf og endir þeirra mála á að vera hjá viðkomandi sveitarfélögum sem hafa skipulagsvald á því svæði sem ætlað er að virkja. Ætla má að viðkomandi sveitarfélög vilji fá að koma að slíkri uppbyggingu með skipulagvaldi sínu samhliða áformum sem teiknuð eru annars staðar á landinu, oftar en ekki með boðvaldi frekar en bón.

Súðavíkurhreppur tekur undir með Sveitarfélaginu Vogar og mótmælir þeim áformum að virða að vettugi skipulagsvald sem kveðið er á um í lögum að skuli vera á hendi sveitarfélaga, stutt stjórnarskrárákvæði um sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga.

Ályktað var um áskorun Sveitarfélagsins Voga á 45. fundi sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps þann 11. mars 2022. Súðavíkurhreppur hefur þegar sent afstöðu sína til bæjarráðs Voga og hvetur önnur sveitarfélög á Vestfjörðum að láta málið til sín taka.

Bragi Þór Thoroddsen – sveitarstjóri Súðavíkurhrepps.

DEILA