Háskólasetrið tekur þátt í málstofu um aftakaveður og áhrif þess á sjávarútvegs- og strandsamfélög

Dr. Catherine Chambers og dr. Matthias Kokorsch taka þátt í málstofu um aftakaveður og áhrif þess á sjávarútvegs- og strandsamfélög á vegum Vísindanefndar um loftslagsbreytingar.

Tveir starfsmenn Háskólaseturs taka þátt í málstofu um aftakaveður og áhrif þess á sjávarútvegs- og strandsamfélög á vegum Vísindanefndar um loftslagsbreytingar.

Nefndin var skipuð af umhverfisráðherra og hefur það verkefni að vinna  vísindaskýrslu um áhrif loftslagsbreytinga á náttúrufar og samfélag á Íslandi. Skýrslan á á að taka mið af reglulegum úttektarskýrslum milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) og byggja á víðtæku samráði við íslenskt vísindasamfélag.

Í þessari fimmtu málstofu taka þátt sérfræðingar í félagsvísindum og munu þeir fjalla um stöðu þekkingar og rannsóknarviðfangsefni framtíðarinnar hvað varðar loftslagsbreytingar á Íslandi á breiðum grunni félagsvísinda.

Dr. Matthias Kokorsch, fagstjóri meistranáms í sjávarbyggðafræði, fjallar um rannsóknaverkefnið CliCNord og flytur fyrirlestur sem ber titilinn “Áhrif þess að búa við snjóflóðahættu – samspil staðartengsla og náttúruvár á Vestfjörðum.”

Dr. Catherine Chambers, rannsóknastjóri Háskólasetur Vestfjarða mun kynna niðurstöður nýrrar rannsóknar um áhrif aftakaveðurs á sjávarútveg og sjávareldi á Vestfjörðum.

Þótt enn séu ýmsir óvissuþættir um áhrif loftslagsbreytinga er ljóst að rannsóknir á borð við þær sem Matthias og Catherine vinna að skapa mikilvæga þekkingu til að hægt sé að bregðast við þessum áhrifum í framtíðinni.

DEILA