Háskólasetrið og Aurora Arktika taka upp samstarf

Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs, Inga Fanney Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Aurora Arktika og Catherine Chambers, rannsóknastjóri Háskólaseturs Vestfjarða

Nýverið skrifuðu Háskólasetur Vestfjarða og ferðaþjónustufyrirtækið Aurora Arktika undir samstarfsyfirlýsingu.

Aurora Arktika er staðsett á Ísafirði og býður upp á fjölbreyttar útivistarferðir á seglskútum, auk siglingaskóla. Ferðirnar eru einkum skíða-, göngu-, og hlaupaferðir í Hornstrandafriðlandinu, á austurströnd Grænlands, Jan Mayen og Diskóflóa.

Inga Fanney Sigurðardóttir, eigandi og framkvæmdastjóri Aurora Arktika hefur yfir 20 ára reynslu sem leiðsögukona á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum. Í gegnum árin hefur hún orðið vör við aukinn áhuga viðskiptavina sinna á umhverfismálum áfangastaða fyrirtækisins. Jafnframt hefur borið á óskum viðskiptavina að leggja eitthvað af mörkum til rannsókna á umhverfinu.

Þátttaka almennings í rannsóknum, með söfnun sýna eða gagna, færist sífellt í aukana í rannsóknastarfi og er því góður samstarfsflötur fyrir Háskólasetrið og Aurora.

Sjálfbærar leiðir til rannsókna, svo sem með því að nota seglskútur til ferðalaga, eru gjarnan notaðar til að safna og miðla þverfræðilegum rannsóknum og upplýsingum með gögnum, ljósmyndum, tónlist og frásögnum.

Það er sérstaklega mikilvægt að víkka út miðlun vísinda á svæðum sem eiga hvað mest undir högg að sækja vegna loftslagsbreytinga, ásamt því að ná utan um sem flestar breytur og sjónarmið einstaklinga. Í meistaraprófsrannsóknum nemenda í haf- og  strandsvæðastjórnun er oft fengist við viðfangsefni í afskekktum fjörðum sem erfitt getur verið að komast til. Það getur því verið ómetanlegt að eiga að samstarfsaðila á borð við Aurora Arkika sem getur safnað sýnum á ferðum sínum um þessar slóðir.

Slíkt samstarf gagnast bæði háskólanemunum og viðskiptavinum Aurora Arktika sem vilja leggja sitt af mörkum til rannsókna á þessum svæðum. Þess utan er Aurora Arktika ferðaþjónustufyrirtæki í heimabyggð sem skapar störf og leggur sitt af mörkum í ímyndarsköpun Vestfjarða. En hvað þetta varðar eru ýmsir snertifletir við námsleiðina í sjávarbyggðafræði en slík dæmi eru iðulega til umfjöllunar í náminu.

DEILA