Gæludýr frá Úkraínu

Tekin hefur verið ákvörðun um að heimila flóttafólki frá Úkraínu að flytja með sér gæludýr sín til Íslands þó þau uppfylli ekki gildandi skilyrði um innflutning.

Slík undanþága felur í sér að sá undirbúningur sem jafnan fer fram fyrir innflutning, þ.e. bólusetningar, sýnatökur, meðhöndlun ofl, mun fara fram eftir komuna til landsins. Þetta krefst allt að fjögurra mánaða einangrunar en tekið er mið af því hve langt dýrið er komið í undirbúningsferlinu við komuna til landsins.

Gera þarf sérstakar ráðstafanir vegna einangrunar þessara dýra og er Matvælastofnun ásamt matvælaráðuneytinu og öðrum hlutaðeigandi aðilum að leita viðeigandi lausna.

Þegar niðurstöður liggja fyrir verða allar nánari upplýsingar birtar á vef Matvælastofnunar.

Þeir sem hafa sett sig í samband við Matvælastofnun vegna hugsanlegs innflutnings gæludýrs í fylgd flóttafólks frá Úkraínu verða upplýstir sérstaklega.

DEILA