Flateyri – Kalksalt fyrirtæki í örum vexti

Eitt af fyrirtækjunum sem fékk styrk úr Þróunarverkefnasjóði Flateyrar á dögunum var Kalksalt ehf á Flateyri. Kalksalt er í eigu Sæbjargar Freyju Gísladóttur og Eyvindar Ásvaldssonar frá Tröð og þau framleiða saltbætiefnafötur fyrir kindur, kýr og hesta.

Saltið fá þau frá saltfiskverkunum á Vestfjörðum, blanda í það kalkþörungum frá Bíldudal og úr þessu verða bæði fötur og steinar sem dýrin eru afar sólgin í.

Verkefnið sem var styrkt og þau ætla að framkvæma núna sumarið 2022 snýst um að setja lýsi saman við kalksaltið og framleiða lýsissteina. Forsagan á bak við þetta er sú að Guðmundur Steinar bóndi í Valþjófsdal bað hjónin um að framleiða steina af þessu tagi fyrir sig, sem þau og gerðu. Fleiri bændur voru áhugasamir um vöruna og tilraunasteinar voru sendir víða. Kindur á öllum landshornum tóku vel í lýsið svo næsta skref var að finna fjármagn til þess að láta framleiðsluferlið verða að veruleika.

Með styrknum er fjármagnið tryggt og sérfræðingar Matís munu verða hjónunum innan handar við að þróa steinana næsta sumar.

Kalksalt fékk líka styrk til að láta hanna umbúðir utan um þessa nýju vöru og það eru hjónin Nina Ivanova á Ísafirði og Ómar Smári Kristinsson sem munu sjá um það. Þau hafa áður hannað umbúðir fyrir fyrirtækið og meðal annars prýðir Önundarfjörður kalksaltföturnar og kindurnar hans Guðmundar Steinars í Valþjófsdal eru á kalksaltsteininum. Kalksalt ehf er fyrirtæki í örum vexti og vörur þess hafa náð að hasla sér völl um allt land á tiltölulega stuttum tíma, enda vilja bændur styðja við íslenska framleiðslu.

DEILA