Fjaraugnlækningar á Vestfjörðum

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Ísafirði.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að veita Heilbrigðisstofnun Vestfjarða 20 milljóna króna framlag til að tryggja íbúum Vestfjarða greiðan aðgang að augnlækningum með uppbyggingu fjarlæknisþjónustu á því sviði.

Mótun og innleiðing verkefnis um fjaraugnlæknisþjónustu við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða (HVest) er liður í því að tryggja aðgengi að sérfræðiþjónustu fyrir íbúa landsbyggðarinnar.

Markmiðið er að nýta tæknilausnir til að veita íbúum Vestfjarða sérhæfða augnlæknisþjónustu í heimabyggð. Miðað er við að sjúklingar sem þurfa þjónustunnar með geti leitað á göngudeild HVest samkvæmt beiðni frá heilsugæslu. Starfsmaður með þjálfun í notkun búnaðarins stýrir myndatöku og gerir nauðsynlegar mælingar og stafrænar myndir eru síðan sendar sérfræðingum í Reykjavík til greiningar og frekara eftirlits. Samhliða fjarþjónustunni er jafnframt stefnt að heimsóknum augnlækna til stofnunarinnar.

Gert er ráð fyrir að með þessu megi bæta aðgengi íbúa að mikilvægri þjónustu, draga úr ferðakostnaði og spara sjúklingum tíma, óhagræði og óbeinan kostnað tengdum læknisheimsóknum til Reykjavíkur.

Tækjabúnaður sem HVest þarf að festa kaup á vegna þessarar þjónustu kostar um 25 milljónir króna. Framlag af byggðaáætlun nemur 11,5 m.kr. heilbrigðisráðuneytið leggur til 8,5 m.kr. og stofnunin sjálf mun ráðstafa um 5 m.kr. af framlögum til tækjakaupa í verkefnið.

Fjaraugnlæknisþjónusta var innleidd hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) fyrir íbúa Vestmannaeyja á liðnu ári og var þar um frumraun að ræða á þessu sviði. Þar er um að ræða tilraunaverkefni milli HSU og fyrirtækisins Sjónlags í Reykjavík. 

DEILA