Vill virkja áhugakafara til að skrá menningarminjar á hafsbotni

Þegar horft er út á haf frá ströndinni við Uppsalaeyri í Seyðiðfirði í Djúpi, á Dvergasteinseyri í Álftafirði eða frá Höfðaodda í Dýrafirði er við fyrstu sýn ekkert sem bendir til mikilla athafna norskra hvalfangara á þessum stöðum. Eftir sem áður voru þarna gríðarlegt umsvif um aldamótin 1900 en mannvirki fyrir verkun og bræðslu hvala eru nær öll horfin. Ef kafað er við þessar gömlu hvalstöðvar koma hins vegar í ljós ótrúlegar minjar um veru norðmanna á þessum slóðum. 

Það hagar þannig víða við strendur landsins að sagan er geymd á sjávarbotni þótt lítið sem ekkert gefi mynd af henni á þurru landi. En þessar minjar eru ekki eilífar því tíminn vinnur þrotlaust á þeim. 

Alexandra Louise Tyas er heilluð af því að svipta hulunni af þessum leyndarmálum sem hvíla í fangi Ægis með því að hvetja áhugakafara á Íslandi til að taka þátt í fornleifarannsóknum neðansjávar. Hún vinnur nú að doktorsrannsókn í neðansjávarfornleifafræði við Háskóla Íslands. 

„Rannsókn mín er á sviði samfélagsþátttöku í neðansjávarfornleifafræði við strendur Íslands,“ segir Alexandra. „Ég rannsaka tengslin milli þátttöku almennings og bættrar minjastjórnunar en annars staðar í heiminum hafa þessi tengsl þróast á jákvæðan hátt til að henda reiður á menningararfinum.“

Alexandra

Alexandra Louise Tyas doktorsnemi.

Alexandra segir að lítið sé um neðansjávarrannsóknir við Ísland vegna þess að vísindafólk á þessu sviði skorti hreinlega hér og því sé mikilvægt að virkja kafara til skráningar á gögnum því tíminn vinni ekki með okkur. 

„Ég ákvað upphaflega að helga mig þessu viðfangsefni í doktorsrannsókninni vegna þess að ég fann svo margar gloppur í neðansjávarrannsóknum þegar ég vann meistararitgerðina mína á sviði stjórnunar arfleifðar við strendur Íslands.“

Ástríða fyrir köfun leiddi hann í neðansjávarrannsóknir

Alexandra, sem er frá Leeds í Englandi, hefur haft atvinnu af köfun í röskan áratug en hún kom upphaflega til Íslands til að stunda meistaranám í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða á Ísafirði. Vegna ástríðu sinnar fyrir köfun náði hún að flétta hana við námið og það vildi svo heppilega til að á Vestfjörðum er einn afkastamesti og þekktasti vísindamaður landsins á sviði neðansjávarfornleifafræði. Það er fornleifafræðingurinn Ragnar Edvardsson við Rannsóknasetur HÍ í Bolungarvík sem hefur vakið mikla athygli fyrir rannsóknir neðansjávar við horfnar hvalstöðvar erlendra þjóða við strendur landsins. Ragnar varð leiðbeinandi Alexöndru í meistararitgerðinni þar sem hún beindi sjónum að mikilvægi þess að skrá menningarminjar við strendur landsins áður þær eyðileggjast með öllu meðan tímanum vindur fram. 

Ragnar

Ragnar Edvardsson, fornleifafræðingur við við Rannsóknasetur HÍ í Bolungarvík.

„Ég hóf að setja saman drög að doktorsrannsókninni út frá niðurstöðum meistararitgerðarinnar. Þess vegna var Háskóli Íslands eðlilegur valkostur fyrir mig þar sem hann hefur mjög öfluga vísindamenn á sviði fornleifafræði og deildin sjálf er mjög öflug. Ég vildi líka nema og búa á Íslandi. Síðan ég kom hingað til Íslands hef ég allan tímann búið hér á Ísafirði sem er algerlega frábært. “

„Þessi rannsókn er algjörlega ný á Íslandi,“ segir Alexandra, „þar sem aldrei hefur fyrr verið reynt að fá almenning til að taka beinan þátt í rannsóknum á sviði neðansjávarfornleifafræði. Almenningur hefur vissulega tekið þátt í fornleifauppgreftri á landi, en sú þátttaka hefur ekki verið meginpartur í neinni rannsókn og mjög litlar upplýsingar er að finna um persónulegar niðurstöður frá þessu fólki sem hafði ekki neina sérhæfða menntun á sviði fornleifafræði.“

Mikill áhugi í samfélagi kafara

Alexandra segir að könnun hafi nú þegar verið send til samfélags kafara á Íslandi til að meta áhuga þeirra á fornleifafræði, á gildi slíkra rannsókna og á núverandi þekkingu þessara kafara á neðansjávarminjum á Íslandi. „Niðurstöðurnar benda til þess að samfélagið hafi mikinn áhuga á að læra meira, taka þátt í þjálfun og í framhaldinu í rannsóknum þegar til lengri tíma litið. Þeir kafarar sem ég hef átt samtöl við lýsa líka allir yfir áhuga á að kafa með tilgangi.“

Talsverð nýsköpun en er fólgin í þessari rannsókn Alexöndru þar sem almenningur, með sérhæfða kunnáttu, er virkjaður til rannsókna á sjávarbotni. „Þessi rannsókn er algjörlega ný á Íslandi,“ segir hún, „þar sem aldrei hefur fyrr verið reynt að fá almenning til að taka beinan þátt í rannsóknum á sviði neðansjávarfornleifafræði. Almenningur hefur vissulega tekið þátt í fornleifauppgreftri á landi, en sú þátttaka hefur ekki verið meginpartur í neinni rannsókn og mjög litlar upplýsingar er að finna um persónulegar niðurstöður frá þessu fólki sem hafði ekki neina sérhæfða menntun á sviði fornleifafræði.“

Alexandra

Alexandra við rannsóknir fyrir vestan.

Alexandra segist vel skilja að kafarar hafi almennt áhuga á að taka þátt í rannsóknum. „Ég kýs sérstaklega sjálf að hafa einhvern markvissan tilgang þegar ég kafa, að ég sé ekki bara að svamla í vatninu tilgangslaust. Þess vegna hafði ég stundað að örlitlu leyti fornleifarannsóknir neðansjávar áður en ég hóf námið hér á Íslandi. Í meistaranáminu gat ég svo aðstoðað Ragnar Edvardsson við hans neðansjávarrannsóknir og varð algerlega heilluð af því.“

Alexandra segir að hana langi í ljósi eigin reynslu til að virkja samfélag kafara „bara vegna þess að ég veit að það eru aðrir eins og ég þarna úti sem hafa ekki fengið tækifæri en vilja virkilega vinna vísindunum gagn. Að vera í kafi og vinna gagn er í rauninni það sem veitir mér hvað mesta gleði og mig langar að deila þessari ástríðu með öðrum sem hugsa svipað.“

Sjálfbært verkefni

Alexandra segir að doktorsverkefnið miði að því að vera sjálfbært á þann veg að það haldi áfram þótt hennar vinnu ljúki. „Þetta á við um vöktun staða sem tengjast lífríki sjávar en einnig því að virkja kafarasamfélagið þannig að það haldi rannsóknum áfram þótt að doktorshluta verkefnisins míns ljúki.“

Aðalleiðbeinandi Alexöndru í rannsókninni er Gavin Lucas, prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Ragnar Edvardsson veitir Alexöndru einnig faglegan stuðning en við Rannsóknasetur HÍ í Bolungarvík er frábær aðstaða fyrir doktorsnema til rannsókna og úrvinnslu gagna. 

Fornleifar

Niðurstöður Alexöndru benda til þess að kafarasamfélagið hafi mikinn áhuga á að læra meira, taka þátt í þjálfun og í framhaldinu í rannsóknum þegar til lengri tíma litið. 

„Ég hef fengið mikinn stuðning frá Háskóla Íslands og alveg einstakan frá leiðbeinandanum mínum, Gavin Lucas. Að auki fékk ég styrk frá Rannís sem ég hefði líklegast hvergi fengið annars staðar í heiminum. Þannig að ég er afar þakklát fyrir allan þann stuðning sem ég hef fengið frá HÍ,“ segir kafarinn og vísindamaðurinn Alexandra Louise Tyas sem ætlar sér með rannsóknum sínum að efla fornleifaskráningu á menningarminjum við strendur Íslands.

Þegar horft er til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna gæti rannsókn hennar hæglega tengst að einhverju leyti markmiði 4 sem snýst um menntun fyrir alla. Hér er sérstaklega verið að virkja alþýðu, með sérhæfða kunnáttu, til að öðlast þekkingu á ákveðnum vísindalegum þáttum til að styðja við vernd og skráningu menningarminja. 

Alexandra Louise Tyas doktorsnemi í kafarabúningi

„Ég hóf að setja saman drög að doktorsrannsókninni út frá niðurstöðum meistararitgerðarinnar. Þess vegna var Háskóli Íslands eðlilegur valkostur fyrir mig þar sem hann hefur mjög öfluga vísindamenn á sviði fornleifafræði og deildin sjálf er mjög öflug. Ég vildi líka nema og búa á Íslandi. Síðan ég kom hingað til Íslands hef ég allan tímann búið hér á Ísafirði sem er algerlega frábært,“ segir Alexandra Louise Tyas doktorsnemi. MYND/Kristinn Ingvarsson

Þessi grein er fengin af vefsíðu Háskóla Íslands

DEILA