Tíðarfar ársins 2021

Ísafjörður

Veturinn 2020 til 2021 (desember 2020 til mars 2021) var nokkuð hagstæður. Sér í lagi suðvestanlands, þar var tiltölulega hlýtt, þurrt og óvenju snjólétt. Úrkomusamara var norðaustanlands. Illviðri voru fremur fátíð þennan veturinn.

Vorið og langt fram í júní var kalt, þurrt og sólríkt. Gróður fór seint af stað. Í lok júní hlýnaði hratt, sérstaklega á Austur- og Norðausturlandi og fór hitinn þar víða vel yfir 20 stig nokkra daga í röð. Hlýindunum fylgdu miklar leysingar eftir kalt vor með miklum vatnavöxtum í ám og lækjum.

Við tóku óvenjuleg og nánast óslitin hlýindi á Norður- og Austurlandi sem stóðu fram í byrjun september. Sumarið var það hlýjasta frá upphafi mælinga m.a. á Akureyri, Egilsstöðum, Dalatanga og á Grímsstöðum á Fjöllum. Dagar þegar hámarkshiti mældist 20 stig eða meira einhversstaðar á landinu hafa aldrei verið fleiri. Sumarmánuðirnir voru óvenju sólríkir og þurrir á Norður- og Austurlandi. Sólskinsstundir hafa aldrei mælst fleiri í júlímánuði á Akureyri og ágústmánuður var víða sá þurrasti frá upphafi mælinga á þessum slóðum. Á meðan var þungbúnara og tiltölulega svalara suðvestanlands, en þó tilltölulega þurrt.

Það varð svo úrkomusamara þegar leið á árið. September og október voru blautir á Norður- og Austurlandi og september og nóvember voru úrkomusamir suðvestan- og vestanlands. Mikið rigningarveður gerði á norðaustanverðu landinu í byrjun október, þá sérstaklega á Tröllaskaga og í Kinnarfjöllum. Miklar skriður féllu í Kinn og Útkinn.

Desember var óvenju hægviðrasamur og tiltölulega snjóléttur um land allt.

DEILA