Stóraukin hætta á gróðureldum á Íslandi

Á síðustu árum hefur hættan á gróðureldum aukist talsvert hér á landi vegna vaxandi gróðursældar og breytinga á veðurfari. Ætla má samkvæmt tölfræði Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að gróðureldar séu orðnir stór  áhættuþáttur í náttúrunni hér á landi, enda geta þeir valdið miklu eigna- og manntjóni og kunna að skaða mikilvæga innviði.

Myndin hér með sýnir hvernig þróunin seinustu ár hefur verið og sést að fjöldi gróðurelda hefur næstum því þrefaldast á seinustu árum.

Á vegum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er að störfum starfshópur um varnir gegn gróðureldum* sem hefur meðal annars það hlutverk að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum gegn gróðureldum. Í ljósi atburða um áramótin áréttar starfshópurinn mikilvægi þess að stjórnvöld beiti sér fyrir því að tryggja slökkviliðum og Landhelgisgæslunni aðgengi að slökkviskjólum sem lykilbúnað til að takast á við gróðurelda hvar sem er á landinu.

Í dag er einungis til ein slökkviskjóla sem keypt var frá Kanada í fyrra þegar eldri skjólan eyðilagðist við slökkvistörf í Heiðmörk sl. vor og hefði því lítið mátt út af bregða svo illa færi. Að mati starfshópsins og miðað við fyrirliggjandi gögn um aukna gróðureldahættu hér á landi er nokkuð ljóst að efla þarf viðbúnað við gróðureldum með því að tryggja aðgengi að fleiri en einni slökkviskjólu svo viðbragsaðilar séu í stakk búnir að bregðast við gróðureldavánni.

*Gróðureldahópurinn er skipaður fulltrúum frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Félagi slökkviliðsstjóra, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Lögreglustjórafélagi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Skipulagsstofnun, Skógræktinni, Veðurstofu Íslands og Verkís.

DEILA