Snjóflóðahættu aflýst

Snjóflóavarnir á Flateyri. Mynd: Verkis.

Hættustigi og óvissustigi vegna snjóflóðahættu hefur verið aflýst á sunnan- og norðanverðum Vestfjörðum.

Austan óveður gekk yfir sunnanverða Vestfirði í gærkvöldi og fram á nótt og var hluti af rýmingarreit 4 á Patreksfirði rýmdur vegna snjóflóðahættu. Nýr varnargarður ver nú innri hluta rýmingarreits 4 en framkvæmdir eru hafnar á garði sem verja á ytri hlutann. Veðrið tók að ganga niður í nótt og lítil úrkoma mældist á norðanverðum Vestfjörðum.

Tvö snjóflóð féllu uppúr miðnætti ofan við svæðið sem rýmt var á Patreksfirði í nótt og snjóflóð féll yfir veg á Raknadalshlíð innar í firðinum. Ekki hafa borist fréttir af fleiri flóðum.

Spár gera ráð fyrir að í dag snúist í skammvinna SV-átt með snjókomu eða éljum en á morgun er útlit fyrir að NA-hríðarveður taki aftur við. Ekki er talin snjóflóðahætta í byggð að svo stöddu en fylgst er með aðstæðum.

DEILA