Snjóflóðahætta á Vestfjörðum

Starfsmaður Snjóflóðasetursins skoðar aðstæður.

Hættustig vegna snjóflóða er í gildi fyrir Vestfirði. Snjóað hefur á svæðinu í norðlægum og austlægum áttum síðan um miðja síðustu viku og vitað er um veikleika í snjóþekjunni. Spár gera ráð fyrir áframhaldandi hvassri NA-átt með snjókomu og síðan éljagangi í dag og fram á morgundaginn.

Vegna snjóflóðahættu á Patreksfirði hafa 8 íbúðarhús verið rýmd, annars vegar hús nr. 15, 17 og 18 við Hóla og hins vegar hús nr. 15,16,17,18 og 19 við Mýra.

Alls er um að ræða 28 íbúa sem þurfa þannig að yfirgefa húsin sín, tímabundið. RKÍ – deildin á Patreksfirði tekur á móti 10 af þessum íbúum en hinir ætla að halda til hjá vinum eða ættingjum annars staðar á Patreksfirði.

Hættustigi hefur verið lýst yfir á Ísafirði þar sem rýmingarreitur 9, undir Steiniðjugilinu, hefur verið rýmdur. Einnig hafa nokkrir sveitabæir verið rýmdir sem og sorpvinnslusvæðið við Funa. Allmörg snjóflóð hafa fallið á norðanverðum Vestfjörðum síðustu daga og þar af nokkur í Skutlusfirði. Síðast í gær féllu tvö snjóflóð utan við Kirkjubæ og þrjú flóð í Fossahlíð. Þá hefur fallið snjóflóð úr Traðargili við Súðavík og í Önundarfirði og Dýrafirði.

DEILA