Öllum sóttvarnaraðgerðum aflétt

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að frá og með föstudeginum 25. febrúar verði öllum opinberum sóttvarnaaðgerðum vegna heimsfaraldurs Covid-19 aflétt, jafnt innanlands og á landamærunum.

Þar með falla brott allar reglur um takmarkanir á samkomum og skólahaldi og einnig krafa um einangrun þeirra sem sýkjast af Covid-19.

Heilbrigðisráðherra kynnti ákvörðun sína eftir fund ríkisstjórnar í gær sem og er byggt á tillögum sóttvarnalæknis til ráðherra um afléttingar. „Við getum sannarlega glaðst á þessum tímamótum en ég hvet fólk engu að síður til að fara varlega, gæta að persónubundnum sóttvörnum og halda sig til hlés finni það fyrir einkennum“ segir heilbrigðisráðherra.

Fyrstu reglugerðir heilbrigðisráðherra um takmarkanir á samkomum og skólastarfi vegna heimsfaraldurs Covid-19 voru settar fyrir tæpum tveimur árum með gildistöku 16. mars 2020. Frá þeim tíma hefur heilbrigðisráðherra sett 166 reglugerðir og auglýsingar um margvíslegar ráðstafanir vegna Covid-19.

DEILA