HÁR MEÐALALDUR ÞRETTÁN SYSTKINA FRÁ LITLA-FJARÐARHORNI

Nanna Franklínsdóttir sem lést 11. febrúar 105 ára og 275 daga var elsti Íslendingurinn.

Hún var fædd í Litla-Fjarðarhorni í Kollafirði í Strandasýslu, níunda í röðinni af þrettán börnum Franklíns Þórðarsonar sem varð 60 ára og Andreu Jónsdóttur sem varð 97 ára.

Anna Margrét systir hennar lifði í 105 ár og 20 daga og Margrét systir þeirra varð 100 ára fyrir rúmum mánuði. Sex önnur systkini urðu 90-98 ára, þrjú urðu 80-87 ára og eitt 79 ára. Meðalaldur þessara þrettán systkina er 92,8 ár sem er það mesta sem vitað er um þegar svo mörg systkini eiga í hlut og ekki líklegt að það met verði bætt.

Þegar Andrea lést voru öll börn hennar og Franklíns á lífi og afkomendurnir orðnir um 140. Í útförinni var flutt erfiljóð í fjórum erindum eftir nágrannakonu hennar, Guðrúnu Guðmundsdóttur frá Melgerði í Strandasýslu. Þar sagði meðal annars: „Þín börn voru mörg / en þig brast ekki kærleikans glóðir / þér blessun sú veittist / að vera hin ástríka móðir.“

Andrea og móðir Torfhildar Torfadóttur, sem varð 107 ára, og Ásgeirs Torfasonar, sem varð 100 ára, voru þremenningar.

Á myndinni er Andrea Jónsdóttir með börnunum þrettán. Efri röð: Jón, Anna Margrét, Þórður, Guðbjörg, Sigurður, Benedikt, Hermína, Eggþór og Guðmundur. Neðri röð: Aðalheiður, Nanna, Andrea, Margrét og Guðborg. Myndin var tekin í Hreðavatnsskála um 1959. Hver kom úr sínum landshluta, allir stilltu sér upp, fengu sér kaffisopa og svo hélt hver til síns heima. Þetta mun vera eina myndin sem til er af öllum systkinunum saman.

Af facebook síðunni langlifi

DEILA