Elstu Íslendingarnir í febrúar 2022

Á facebooksíðunni langlífi er sagt frá því að ellefu elstu Íslendingarnir eru fæddir á tímabilinu frá maí 1917 og fram í október 1918 eða áður en Ísland varð fullvalda ríki, 1. desember 1918 (og einnig áður en fyrri heimsstyrjöldinni lauk, 11. nóvember 1918).

Þórdís Filippusdóttir er elst núna, 104 ára, en næst henni í aldri er Helga Guðmundsdóttir í Bolungarvík sem er aðeins 10 dögum yngri en Þórdís. Þrjár aðrar konur eru á sama aldursári. Þrír karlar og þrjár konur eru 103 ára.

Alls eru 38 manns hundrað ára eða eldri, 5 karlar og 33 konur.

Í árslok 1918 voru 66 á lífi sem voru níutíu ára eða eldri (enginn eldri en 98 ára) en nú eru þeir um 2.500.

Fólk sem fæddist árið 1918 gat vænst þess að verða 55 ára en þeir sem fæðast núna verða að meðaltali um 83 ára. Er þá miðað við lífshorfur í hverjum aldursflokki eins og þær eru nú en búast má við að þær batni mikið á næstu áratugum.

DEILA