Ekki hefur fundist fuglaflensa í svartfuglum hér við land

Langvíur

Ástæða fjöldadauða svartfugla fyrr í þessum mánuði er ekki ljós en fuglaflensa greindist ekki í þeim sýnum sem tekin voru úr fuglunum.

Matvælastofnun fylgist með þróun fuglaflensufaraldurs sem geisar í Evrópu um þessar mundir og er í sambandi við sérfræðinga í öðrum löndum í því sambandi.

Greining á fuglaflensu á Nýfundnalandi gefur vísbendingar um að veiran geti hafi borist með farfuglum frá Evrópu sem hafa viðkomu á Íslandi. Fuglaeigendur þurfa að vera viðbúnir því að herða þurfi sóttvarnir á vormánuðum.

Í janúarmánuði varð vart við mikinn dauða svartfugla við strendur landsins. Ekki er vitað hvað veldur því að fuglarnir hríðfalla en mjög ólíklegt er að um fuglaflensu sé að ræða. Líklegasta skýringin er hungur þótt ekki sé hægt að fullyrða að það sé eina skýringin. Í þeim sýnum sem tekin voru á Austurlandi úr hræjum af álkum, langvíum og haftyrðlum greindust ekki fuglaflensuveirur.

Í lok síðasta árs kom upp skæð fuglaflensa af gerðinni H5N1 í litlum alifuglahópi á Nýfundnalandi í Austur-Kanada. Á svipuðum tíma, nálægt sýkta búinu, fannst sama veira í dauðum svartbaki. 

DEILA