Ekkert ferðaveður og mikil ófærð

Flestar allar leiðir á Vestfjörðum eru ófærar. Snjóþekja og skafrenningur er á Innstrandarvegi.

Fyrri ferð Baldurs féll niður en aðstæður eru að lagast eins og spá gerði ráð fyrir og því er stefnt að brottför frá Stykkishólmi kl. 15:00 og Brjánslæk kl 18:00 . Við viljum þó hvetja farþega og flutningsaðila að fylgjast með fréttum á vefsíðum okkar, Facebook og saeferdir.is, því aðstæður gera breyst í báðar áttir og því mikilvægt að fylgjast vel með. Ef gera þarf breyting á áætlun munum við senda út tilkynningu eins fljótt og mögulegt er. Allar ákvarðanir um siglingar eða breytingu á áætlun eru teknar með öryggi farþega, áhafnar, skips og farms að leiðarljósi segir í tilkynningu frá Sæferðum.

Gular viðvaranir eru nú í gildi vegna hvassviðris og hríðar á Faxaflóa og á spásvæði Stranda og Norðurlands vestra en appelsínugul viðvörun er í gildi fyrir Breiðafjörð og Vestfirði. Veður á að ganga niður í kvöld.

Í athugasemd veðurfræðings á Vedur.is segir að mikil lausamjöll sé víða um land og þarf lítinn vind til að skafrenningur valdi vandræðum á vegum víða um land.

DEILA