3. áfanga rammaáætlunar til afgreiðslu hjá stjórnarflokkunum

Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum á föstudag að senda tillögu umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra til þingsályktunar um 3. áfanga rammaáætlunar til stjórnarflokkanna til afgreiðslu.

Þingsályktunartillagan er lögð fram í sömu mynd og  á  151., 146. og 145. löggjafarþingi, en ekki voru afgreiddar. Þar er að finna tillögur til umfjöllunar og ákvarðanatöku Alþingis um virkjanakosti sem ýmist eru flokkaðir í nýtingar-, verndar- eða biðflokk.

Svæði sem Alþingi hefur þegar samþykkt í verndarflokk og hafa verið friðlýst í samræmi við lög um verndar- og orkunýtingaráætlun hafa verið felld úr tillögunni. Þetta eru Hólmsárvirkjun við Einhyrning, Tungnaárlón, Gýgjarfossvirkjun, Bláfellsvirkjun, Gjástykki, Brennisteinsfjöll, Hverabotn, Neðri-Hverdalir, Kisubotnar og Þverfell.

Þingsályktunartillagan kveður á um að tryggt verði að nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið verði tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingar-kosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

„Það er ánægjulegt að tillagan var afgreidd af ríkisstjórn í morgun. Ég hef frá því ég kom í ráðuneytið lagt áherslu á að koma málinu sem fyrst til Alþingis til umfjöllunar enda mikilvægt að þing og þjóð fái tíma til þess að kynna sér málið vel og fjalla um það. Við höfum sett okkur háleit markmið í loftslagsmálunum og við ætlum að ná þeim. Til þess þurfum við að nýta með sjálfbærum hætti okkar orkuauðlindir í sem mestri sátt. Það þarf að huga að mörgum þáttum varðandi málefnið og brýnt er að vanda til verka. Ég treysti því að þingið geri það og taki til greina þau sjónarmið sem líta þarf til við efnislega afgreiðslu þessa mikilvæga máls,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

DEILA