Verndandi arfgerð gegn riðu fundin

Mynd: Bændablaðið

Hin klassíska verndandi arfgerð gegn riðuveiki í sauðfé, ARR, hefur nú fundist í fyrsta sinn í íslenskri kind. Þetta er stórmerkur fundur, því hér er um að ræða arfgerð sem er alþjóðlega viðurkennd sem verndandi og unnið hefur verið með í löndum Evrópusambandsins við útrýmingu riðu með góðum árangri.

Sex einstaklingar fundust fyrir skemmstu með tiltekna verndandi arfgerð (ARR) gegn riðu, sem er alþjóðlega viðurkennd og notuð með góðum árangri í Evrópu við útrýmingu á riðu í sauðfé. Einstaklingarnir sex eru allir á bænum Þernunesi í Reyðarfirði.

Síðastliðið vor var hleypt af stokkunum tveim rannsóknarverkefnum sem höfðu sama meginmarkmið –  að leita að verndandi arfgerðum gegn riðu í íslensku sauðfé.

Annars vegar eru það sérfræðingar á Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum að Keldum og hins vegar sauðfjárbóndinn Karólína Elísabetardóttir ásamt erlendum vísindamönnum sem standa fyrir rannsóknunum. 

Þessi fundur gefur miklar vonir um að fé með ARR arfgerðina geti fundist víðar á landinu. Það kemur sér vel að um þessar mundir er að hefjast stórátak meðal bænda í riðuarfgerðargreiningum, þar sem áætlað er að ná a.m.k. upplýsingum um arfgerðir 15 þúsund gripa til viðbótar nú í vetur. Fyrir ræktunarstarfið verður áskorunin á næstu árum að koma ARR arfgerðinni sem hraðast inn í stofninn án þess að draga um of úr erfðafjölbreytileika hans, en um er að ræða langtíma uppbyggingarstarf. Vonir standa til að áframhaldandi leit í stofninum skila upplýsingum um fleiri gripi með þessa arfgerð.

DEILA