Smitandi öndunarfærasýking í hundum

Matvælastofnun hefur nýlega fengið tilkynningar um að á höfuðborgarsvæðinu hafi verið óvanalega mikið um hóstandi hunda og lítur út fyrir að um sýkingu sé að ræða sem berst auðveldlega og hratt milli hunda. Matvælastofnun hefur í samvinnu við Tilraunastöð Háskólans að Keldum sett af stað rannsóknarverkefni til að reyna að finna út úr því hvað gæti verið að valda þessum hósta. Hundarnir virðast vera á öllum aldri og ýmist bólusettir eða óbólusettir. Sumir hafa verið á hundahótelum eða vinsælum hundasvæðum, aðrir ekki. Flestir verða ekki mikið veikir og ná sér á nokkrum dögum.

Smitandi öndunarfærasýking er þekkt hjá hundum og kallast oft í daglegu tali hótelhósti – „kennel cough“ á ensku. Hótelhósti er í raun lýsing á sjúkdómseinkennum í efri öndunarvegi, og margvísleg smitefni geta legið að baki, bæði veirur og bakteríur sem þá valda einkennum frá efri öndunarvegi svo sem hósta, og útferð úr nefi og augum, en í sumum tilfellum einnig slappleika og lystarleysi. Einkennunum getur svipað til þess að aðskotahlutur, t.d. flís eða strá hafi fests í hálsi hundsins.

Öndunarfærasýkingar eru oft bráðsmitandi af því að smit getur borist með loftögnum við hósta og hnerra. Þarf því ekki beina snertingu, en auðvitað getur smit líka verið í munnvatni og útferð úr nefi og augum.

Flestir hundar fara í gegnum veikindin á nokkrum dögum, án þess að verða alvarlega veikir. En einstaka hundar geta orðið veikari, og þá hefur oft orðið meiri sýking af öðrum bakteríum sem hafa „notað tækifærið“ þegar mótefnakerfi hundsins var ekki upp á sitt besta. Getur hundurinn þá fengið einkenni lungnabólgu svo sem hækkaðan hita og erfiðleika við öndun. Hundum með einkenni, jafnvel þó lítil séu, ætti að forða frá mikilli áreynslu og hlaupum.

Haustið 2017 fór um landið eins og eldur í sinu, smitandi öndunarfærasýking þar sem hnerri var ríkjandi einkenni, en ekki hósti eins og algengast er. Sú pest lagðist bæði á hunda og ketti, en ekki tókst að finna smitefnið þrátt fyrir margar sýnatökur og leit að veirum eða bakteríum sem þekkt er að valdi öndunarfæraeinkennum.

Ef hundar verða mjög slappir eða fá hækkaðan hita, sem þýðir yfir 39,2°C (eðilegur líkamshiti hunda er 38-39°C) þá er rétt að leita til dýralæknis með hundinn til skoðunar og til að meta alvarleika segir í tilkynningu frá Matvælastofnun

DEILA