Sjávarútvegsráðherra ætlar ekki að auka strandveiðikvóta

Smábátar landa í Patrekshöfn. Hafnarmúlinn í baksýn. Mynd: Patrekshöfn.

Í síðustu viku áttu áttu formaður og framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda fund með Svandísi Svavarsdóttur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en þann 21. desember sl. ákvað ráðherra með undirritun reglugerðar að skerða þorskveiðiheimildir sem ætlaðar eru til strandveiða næsta sumar og almenns byggðakvóta.  

Á fundinum mótmælti LS ákvörðuninni harðlega.  Sagði hana ganga þvert á þau markmið að tryggja 48 daga til strandveiða.  LS lagði áherslu á að strandveiðar væru þær veiðar sem yllu minnstu raski í hafrýminu og minnstu kolefnissótspori.  Auk þess hefðu þær reynst gríðarlega vel fyrir hinar dreifðu byggðir.  
Í ljósi þessa treystir LS á að ákvörðunin verði endurskoðuð, enda hér mikið alvörumál sem snertir um 700 útgerðir auk flest öll byggðarlög landsins.   

Í frétt Morgunblaðsins í dag kemur fram að ráðherra ætlar ekki að verða við þessum óskum. Svandís svar­ar skýrt spurn­ing­um um hvort strand­veiðikvót­inn verði auk­inn. „Skerðing­in bygg­ir á vís­inda­legri ráðgjöf Haf­rann­sókn­ar­stofn­un­ar en vís­inda­leg ráðgjöf um há­marks­afla er horn­steinn ís­lenska fisk­veiðistjórn­un­ar­kerf­is­ins,“ seg­ir í svari Svandís­ar sem kveðst ekki hafa átt annarra kosta völ. „Að sinni tel ég ekki ástæðu til að end­ur­skoða þann afla sem er áætlaður strand­veiðum og ganga þar með gegn vís­inda­legri ráðgjöf.“

DEILA