Rækja


S
ú rækjutegund sem lifir hér við land kallast nú til dags aðeins rækja, en til er eldra heitið stóri kampalampi. Rækjan er dæmigerð kaldsjávartegund og ein af þeim rúmlega 50 tegundum sem tilheyra ættinni Pandalidea og er langmest veidda kaldsjávarrækjutegund í heimi.

Rækja á grunnslóð skiptir um kyn við 3-4 ára aldur og er hún þá 16 -21 mm á lengd. Á djúpslóð verða þessi kynskipti þegar rækjan er orðin 5-6 ára og 22-24 mm á lengd.

Rækja er rauð að lit þegar hún er lifandi og bleik þegar hún er dauð. Líkaminn skiptist í höfuðbol og afturbol, oftast nefndir ,,haus”og ,,hali”. Neðan á höfuðbolnum eru fimm pör gangfóta en fimm pör sundfóta neðan á afturbolunum. Einnig eru nokkrir flóknir munnlimir og langir fálmarar framan á höfuðbol. Annað par gangfóta er lengra en aðrir gangfætur og með örsmáum gripklóm.

Rækja er útbreidd um Norður-Atlantshafið og finnst í hafinu allt í kringum Ísland. Rækjan heldur sig á 50-700 m dýpi. Talað er um innfjarðarrækju þegar hún heldur sig á grunnslóð en um djúpsjávarrækju eða úthafsrækju þegar hún lifir á meira en 200 m dýpi en rækjur lifa á dýptarbilinu milli 200 – 700 metra. Kjörbotngerð þeirra er leirbotn. Kjörbirta rækjunnar er myrkur. Á daginn þegar dagsbirtan nær niður í sjóinn heldur rækjan sig rétt við botninn en þegar skyggja tekur syndir hún upp að yfirborðinu. Slíkar reglubundnar hreyfingar nefnast dægurhreyfingar og eru mjög algengar meðal sjávardýra. Lífsferill rækjunnar er sérstakur vegna þess að hún skiptir um kyn við 2-6 ára aldur og breytist þá frá því að vera karlkyns í það að verða kvenkyns. Helsta fæða rækjunnar eru ýmsir hryggleysingjar eins og lindýr og ormar. Sjálf er rækjan mikilvæg fæða fyrir þorsk og fleiri fisktegundir. Rækjulirfur klekjast út á sama tíma og vorblóminn í hafinu er í hámarki og er þroskun eggja rækjunnar háð hitastigi. Þroskunartíminn er þannig mislangur eftir botnhita og getur hækkun sjávarhita valdið því að rækjulirfur klekist út of snemma til þess að nýta sér hámark vorblóma plöntusvifs.

Af fiskbokin.is

DEILA