Orð ársins 2021 er BÓLUSETNING

Undanfarin ár hefur Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum valið orð ársins. Á stofnuninni er upplýsingum um málnotkun safnað árið um kring. Fjölbreyttum textum er stöðugt bætt við svokallaða Risamálheild en þar er nú gífurlegt magn texta, tæplega 1,9 milljarðar lesmálsorða úr nútímamáli. Við val á orði ársins byggir stofnunin á nýjustu gögnum Risamálheildarinnar. Kallaðir voru fram þrír tíðnilistar úr Risamálheildinni: Listi yfir ný orð árið 2021 sem hafa aldrei komið fram áður. Listi yfir orð sem birtust tvöfalt oftar árið 2021 en nokkuð annað ár og listi yfir orð sem birtust oftar árið 2021 en samtals næstu fjögur ár á undan.

Tíðnilistarnir duga þó ekki einir og sér. Til að hafa eitthvað fram yfir önnur orð í vali á orði ársins þurfa orð að uppfylla einhver eða sem flest af eftirfarandi skilyrðum:

  • Þau segja okkur eitthvað um samtímann eða samfélagsumræðuna.
  • Þau hafa möguleika á að lifa áfram í daglegri notkun eða sem minnisvarði um atburði sem áttu sér stað á árinu.
  • Þau eru lýsandi fyrir málnotkun, annaðhvort almennt eða á tilteknu sviði.
  • Þau eru ný í málinu eða gömul orð sem hafa fengið nýja merkingu.

Tíu orð voru valin úr listanum, auk þess sem orð tengd þeim voru skoðuð. Rétt eins og árið á undan þá voru orð sem tengjast heimsfaraldrinum mjög áberandi. En það var ekki aðeins Covid-19 sem herjaði á lungu landsmanna því Reykjanesskaginn minnti á sig og hið sakleysislega Fagradalsfjall hóf að spúa gosmóðu yfir landsmenn. Sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda urðu æ umdeildari en önnur mál náðu einnig að hleypa landanum kappi í kinn, eins og uppkosningin í Norðvesturkjördæmi eða réttmæti slaufunarmenningarinnar.

Bólusetning (no. kvk.)

Stóraukin notkun orðsins bólusetning og ýmissa skyldra, samsettra orða á seinasta ári fleytti orðinu efst á listann yfir orð ársins 2021. Auk þess hafa bólusetningar sett mark sitt á stóran hluta landsmanna. Flestir mættu í langar raðir til þess að láta dæla í sig áður óþekktu efni undir dynjandi popptónlist og ófáir hafa tekið þátt í hatrömmum umræðum um bólusetningar.

Orðið bólusetning er að sjálfsögðu ekki nýtt af nálinni enda hafa bólusetningar tíðkast á Íslandi allt frá byrjun 19. aldar. Bólusetning hefur þannig um áratugaskeið verið eðlilegur hluti af læknaheimsóknum barna og undirbúningi ævintýragjarnra Íslendinga fyrir ferðalög á framandi slóðir. Nokkur umræða um gagnsemi og mögulega fylgikvilla bólusetninga hefur skotið upp kollinum af og til en hún stórjókst á seinasta ári í kjölfar þess að byrjað var að bólusetja gegn kórónuveirunni í upphafi árs. Skyndilega kunni fólk skil á mismunandi tegundum bóluefna og kenndi sig jafnvel við þær. Þannig var Jón Jansen-maður á meðan Pála var Pfizer-kona. Flestir treystu Þórólfi, gerðust bólusetningarsinnar, fylgdust samviskusamlega með bólusetningardagatalinu og mættu glaðbeittir í árgangabólusetningu, á meðan anti-bólusetningarsinnar sátu sem fastast fyrir framan tölvuna og vöruðu við nauðungarbólusetninguHálfbólusettir þrömmuðu inn í Laugardalshöll og þóttust fullbólusettir þegar þeir gengu út enda með bólusetningarvottorð upp á það. En gleðin varði stutt því skyndilega voru menn kallaðir til baka í örvunarbólusetningu.

Saga bólusetninga hefst fyrir alvöru þegar bólusett var gegn bólusótt við upphaf 19. aldar. Bólusótt er skæður smitsjúkdómur sem herjaði á menn og kýr fyrr á öldum. Það vakti athygli enska læknisins Edwards Jenner að mjaltastúlkur sem höfðu fengið kúabólu voru varðar gegn því afbrigði bólunnar sem herjaði á fólk. Hann þróaði því bóluefni gegn bólusótt með því að nýta sér kúabóluna. Þannig var fólk varið gegn bólusótt með því að „setja kúabóluna í það“, enda var snemma byrjað að nota orðið bólusetning á Íslandi. Til gamans má geta að enska orðið vaccine (bóluefni) er dregið af latneska orðinu vaccinus sem útleggst ‘af kúnni’.

DEILA