Ný reglugerð um velferð alifugla

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur undirritað reglugerð um velferð alifugla, en tilgangur hennar er að tryggja velferð og heilbrigði allra alifugla með góðri meðferð, umhirðu og aðbúnaði.

Ný reglugerð byggir á samstarfi vinnuhóps þar sem sæti áttu fulltrúar alifuglabænda, Dýraverndarsambands Íslands og Matvælastofnunar.

Með nýrri reglugerð eru meðal annars gerðar eftirfarandi kröfur:

  • Hámarksþéttleiki fugla á aðgengilegu gólfsvæði í eldishúsum skal ekki fara yfir 39 kg/m². Heimild MAST til undanþágu er felld brott.
  • Óheimilt er að snúa alifugla úr hálslið án undangenginni deyfingar, sem felst í að rota fuglinn með höggi og svipta hann þannig meðvitund.
  • Óheimilt er að bera sláturkjúklinga og aðra fugla í samræmilegri þyngd af tegundinni Gallus gallus á öðrum fæti.
  • Umráðamanni alifugla ber að tilkynna Matvælastofnun um fyrirhugaða starfsemi eigi síðar en 30 dögum áður en starfsemi hefst, í stað þriggja mánaða, eins og samkvæmt eldri reglugerð. Breytingin er í samræmi við reglugerðir um velferð annarra dýrategunda.
  • Umráðamanni alifugla sem nota á við gerð auglýsinga, kvikmynda, leiksýninga eða við aðrar aðstæður og/eða í umhverfi sem alifuglum er ekki eðlilegt, ber að tilkynna Matvælastofnun um fyrirhugaða notkun eigi síðar en 10 dögum áður en áætluð notkun fer fram. Breytingin er í samræmi við reglugerðir um velferð annarra dýrategunda.
  • Umráðamaður eða eigandi fugla skal tilkynna til Matvælastofnunar um fyrirhugaða aflífun á fuglahópum sem í eru 250 alifuglar eða fleiri.

Reglugerðin var sett í Samráðsgátt stjórnvalda þann 5. nóvember sl. Tvær umsagnir bárust. Ráðherra hefur einnig ákveðið að skipa starfshóp sem verður falið að koma með tillögur að aukinni velferð alifugla.

DEILA