Norðan og norðvestan hvassviðri eða stormur og hríð í kvöld

Búast má við norðvestan stormi eða roki á norðan- og austanverðu landinu í kvöld og fram til hádegis á morgun, auk þess sem gert er ráð fyrir hríð norðanlands, eftir því sem fram kemur á vef Veðurstofu Íslands. Í athugasemd veðurfræðings segir jafnframt að búast megi við lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum og er fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.

Síðdegis í dag tekur gul viðvörun gildi vegna veðurs og nær yfir Vestfirði, Strandir og Norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland að Glettingi, Austfirði og Suðausturland.

Á Ströndum og Vestfjörðum norðanverðum má búast við norðvestan 18-23 m/s og hviðum yfir 30 m/s í vindstrengjum ásamt snjókomu. Éljagangur með skafrenningi og lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum vofir yfir með afmörkuðum samgöngutruflunum á vegum, einkum til fjalla. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.

Um miðnættið fellur gula viðvörunin úr gildi á Vestfjörðum og svo hver af annarri eftir því sem austar dregur fram á morguninn.

DEILA