Mest flutt út af þorski til Frakklands

Langmest er flutt út af þorski til Frakklands, en frá og með árinu 2017 hefur Frakkland verið stærsta viðskiptaland Íslendinga með þorskafurðir.

Fluttar voru út þorskafurðir til Frakklands fyrir tæpa 29 milljarða króna á fyrstu 11 mánuðum ársins. Það er um 14% aukning í krónum talið frá sama tímabili árið á undan.

Hlutur Frakklands í útflutningsverðmæti þorskafurða á tímabilinu var um 24% og er það því komið með nokkuð afgerandi forystu á næstu lönd. Bretland er annað stærsta viðskiptaland Íslendinga með þorskafurðir, en hlutdeild þess var rúm 16% á fyrstu 11 mánuðum ársins 2021. Spánn er í þriðja sæti (13%) og Bandaríkin í því fjórða (12%).

Þegar eingöngu er horft á ferskar þorskafurðir er hlutur Frakklands enn meira afgerandi. Á myndinni sem fylgir með fréttinni má sjá útflutningsverðmæti þorskafurða fyrstu 11 mánuði, undanfarin þrjú ár, til 8 stærstu viðskiptaþjóða Íslendinga með þorsk. Frakkland ber höfuð og herðar yfir aðrar þjóðir þegar kemur að ferskum þorskafurðum, en hér er ekki talinn með ísaður heill þorskur eða hausskorinn ferskur þorskur. Um 55% útflutningsverðmæta ferskra þorskafurða fóru til Frakklands.

DEILA