Mest fiskeldi á Vestfjörðum

Umfang fiskeldis er mjög mismunandi eftir landshlutum, eins og sést á myndinni sem fylgir hér með.

Mest er það á Vestfjörðum þar sem 27,4 þúsund tonnum af eldisfiski var slátrað í fyrra, sem er ríflega helmingur af því sem fór til slátrunar á árinu. Það er um 22% aukning á milli ára.

Mesta aukningin var þó á Austurlandi þar sem rúmlega 17,5 þúsund tonnum af eldisfiski var slátrað samanborið við 10,2 þúsund tonn árið 2020. Það gerir um 71% aukningu á milli ára.

Þó er rétt að hafa í huga að umfang fiskeldis byggist ekki eingöngu á fjölda tonna sem slátrað er á hverjum stað. Bleikja og lax eru að sjálfsögðu misstórir fiskar, framleiðsluferli geta verið mismunandi og Suðurland er langstærst í klaki og seiðaræktun fyrir aðrar eldisstöðvar. Þar að auki er kynbótastöð fyrir bleikju á Norðurlandi vestra og eystra, sem sér öllum öðrum bleikjustöðvum fyrir hrognum.

Af þessu er ljóst að fiskeldi er víða um land og hefur veruleg áhrif á atvinnulíf einstakra landshluta.

DEILA