Loðnumælingar næstu tvær vikur

Fyrirhugað yfirferðarsvæði rannsóknaskipanna, Árna Friðrikssonar og Bjarna Sæmundssona

Í gær 19. janúar héldu bæði skip Hafrannsóknastofnunar, Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson, til loðnumælinga. Markmiðið er að ná mælingu á stærð hrygningarstofnsins á næstu tveimur vikum.

Fyrir liggur mæling á stærð stofnsins frá því í haust við Grænland sem leiddi til ráðgjafar upp á rúm 904 þúsund tonn. Gildandi aflaregla gerir ráð fyrir að sú ráðgjöf verði endurskoðuð að loknum mælingum nú í vetur.

Lokaráðgjöf um aflamark fyrir yfirstandandi vertíð mun svo byggja á niðurstöðum þessara tveggja mælinga.

Á síðustu árum hefur loðnuskipaflotinn tekið þátt í þessum mælingum en ekki er gert ráð fyrir slíku í ár þar sem þau skip eru upptekin við veiðar. Útgerðir munu hinsvegar veita aðstoð og upplýsingar um loðnudreifingu sem nýtast við mælingarnar.

Fyrirhugað yfirferðarsvæði skipanna tveggja er sýnt á mynd með frétt, ásamt leiðarlínum miðað við tvöfalda umferð. Nokkrir þættir geta svo haft áhrif á endanlegt yfirferðarsvæði svo sem veður, dreifing loðnu og hafís.

Hægt er að fylgjast með ferðum rannsóknaskipa á skip.hafro.is/

DEILA