Ísafjarðarbær: Hlutverk og markmið hverfisráða endurskoðað

Þingeyri.

Undanfarin misseri hefur Ísafjarðarbær, í samstarfi við RR ráðgjöf og hverfisráð sveitarfélagsins, unnið að verkefni um mögulegar breytingar á stjórnkerfi hverfisráðanna. Tilgangur verkefnisins er að skýra hlutverk og markmið hverfisráða og meta hvort núverandi fyrirkomulag sé til þess fallið að ná þeim markmiðum, auk þess að leita leiða til úrbóta.

„Hverfisráðin utan Skutulsfjarðar komu til fundar við sveitarfélagið sumarið 2021 til að ræða framtíð ráðanna og mögulegar lausnir á því að gera núverandi fyrirkomulag skilvirkara,“ segir Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. „Í kjölfarið var ákveðið að fá RR ráðgjöf til að aðstoða við að finna mögulegar lausnir eða tillögur að breytingum á stjórnkerfi hverfisráðanna.“  

Haustið 2021 voru haldnar vinnustofur með stjórnarmönnum hverfisráða annars vegar, og bæjarfulltrúum hins vegar, auk sameiginlegrar vinnustofu. Þar voru styrkleikar og veikleikar núverandi fyrirkomulags hverfisráða greindir, auk ógnana og tækifæra við þátttöku og samráð við íbúa. Einnig var farið yfir fyrirkomulag íbúasamráðs og -þátttöku hjá öðrum sveitarfélögum.

Á 1182. fundi bæjarráðs, þann 10. janúar 2022, kynntu fulltrúar RR ráðgjafar drög að niðurstöðum og mun lokaskýrsla berast sveitarfélaginu innan tíðar. Í kjölfarið verður metið hvaða tillögur eru ákjósanlegastar fyrir sveitarfélagið til að efla hverfisráð og aðkomu íbúa í hverjum byggðakjarna vegna málefna hvers bæjarkjarna.

Hverfisráðum í Ísafjarðarbæ var komið á laggirnar í upphafi árs 2011. Ráðin eru sex, einn fyrir hvern bæjarkjarna, þó tvö á Ísafirði. Starfsemi og hlutverk ráðanna hefur áður verið endurskoðað en vorið 2017 var haldið málþing og vinnustofur um málefni hverfisráða þar sem staðan var tekin og farið yfir hvað hefði gengið vel og hvað ekki. Í kjölfarið voru úrbætur gerðar, m.a. varðandi stjórnsýsluna og tengiliði hverfisráða í bæjarstjórn.

DEILA