Fé á bænum Kambi í Reykhólasveit rannsakað

Eftir að hin svokallaða ARR-arfgerð fannst í Þernunesi við Reyðarfjörð vaknaði von um að hana væri líka að finna á Kambi í Reykhólasveit því féð sem greindist rekur ættir sínar meðal annars þangað.

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, segir að ef rétt reynist, þýði það að hin svokallaða ARR-arfgerð gæti verið nokkuð útbreidd en hún er viðurkennd og notuð hjá Evrópusambandinu til að rækta riðulaust fé.

Kambur er sölubú, selur gripi á fæti og varnarhólfið sem bærinn er í telst mekka í ræktun á kollóttu fé. Finnist genið þarna líka myndi það auðvelda mjög að koma því hratt og vel inn í íslenska fjárstofninn.

Tekin voru 50 sýni á Kambi nýlega og þau send í greiningu til Þýskalands. Niðurstöður gætu borist fyrir vikulok.

DEILA