Aukning í laxeldi má að mestu rekja til eldis í sjó

Langstærsti hluti þeirrar aukningar sem orðið hefur á laxeldi hér á landi, má rekja til eldis í sjó.

Í fyrra var um 44,5 þúsund tonnum af laxi slátrað úr sjókvíum en um 2 þúsund tonnum úr landeldi. Mikil endurnýjun og uppbygging hefur orðið á seiðastöðvum undanfarin ár sem hefur skilað sér í stöðugt fleiri seiðum til áframeldis.

Myndin hér með sýnir heildarfjölda laxaseiða sem fóru til áframeldis í sjókví og magn þess sem slátrað var tveimur árum síðar.

Miðað við fjölda útsettra seiða árið 2020 áætlar MAST að yfir 50 þúsund tonn af eldislaxi úr sjó fari til slátrunar í ár samanborið við 44,5 þúsund í fyrra.

Eftir það telur MAST að ákveðnu jafnvægi verði náð og að tölurnar verði á bilinu 50 til 60 þúsund tonn á næstu árum.

Á heimsvísu er reiknað með því að eldi á laxi aukist um 2-3% á ári, en að markaðurinn stækki um 5-7%. Því mun eftirspurnin vaxa hraðar en framboðið. Eru því horfur á að útflutningstekjur af laxeldi aukist enn frekar í ár og á næstu árum.

DEILA