Vindhviðustaðir á þjóðvegum

Fyrir nokkrum árum var unnið að kortlagningu og lýsingu á hviðustöðum á helstu þjóðvegum landsins og var verkið styrkt af Rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar. Þar var leitast við að gefa greinargóða lýsingu á vindafari og veðuraðstæðum á þekktum hviðustöðum ásamt því að staðirnir voru hnitsettir. Verkinu var ekki fyllilega lokið þá og
í raun aðeins um drög eða tilraun að ræða.
Markmið með hviðuþekju er að útbúa hnitsett kerfi upplýsinga um varasama hviðustaði á helstu stöðum þar sem kortaþekjan getur gagnast með öðrum kortum og/eða stafrænum upplýsingakerfum fyrir þjóðvegi landsins s.s. til miðlunar til vegfarenda.

Við skráninguna var gerð sú meginkrafa að á viðkomandi stað væri þekkt að ökutæki eða vagnar hefðu fokið út af eða lent í öðrum vandræðum vegna vinds. Samtals nær skráningin til 99 staða á landinu og voru þessir 7 á Vestfjörðum


Barðaströnd- Hamarshyrna (62
)
NA-átt
Vel þekkt misvindi í NA-átt á um 10 km kafla þar sem slær fyrir á milli Rauðsdals og Vaðalsdals undir brattri Hamarshyrnunni. Nokkuð algengt, en verst yfir vetrartímann og þarna þurfa ökumenn að sýna talsverða aðgæslu.

Raknadalur (63)
NA-átt
Stuttur kafli fyrir mynni Raknadals í Patreksfirði. Vindmögnun verður niður dalinn og rekur á harða hnúta í verstu veðrum og þá þvert á veginn. Bílar hafa fokið út af.

Geirsmúli í Patreksfirði (63)
NA-átt
Um 100 m innan við byggðina á Patreksfirði undir Geirsmúla er stuttur vegarkafli á Barðastrandarvegi þar sem hviður fylgja hvassri NA-átt. Bílar hafa fokið út af, en einkum þegar snjór og hálka er á vegi. Oftast ekki til ama utan vetrarins.

Húsadalur í Tálknafirði (63)
NA-átt
Neðst á veginum upp á Hálfdán ofan við Eysteinseyri. Þarna rekur á öfluga hnúta í algengum NA-stormum á öllum árstímum. Varasamt í kröppum beygjunum upp Húsadalinn.

Bjarnardalur í Önundarfirði (60)
NA-átt / V- og SV-átt.
Varasamur kafli ofantil í Bjarnardal á norðanverðri Gemlufallsheiðinni þar sem bílar hafa fokið út af og orðið slys. Í NA-átt ber töluvert á slæmu endurkasti vinds frá hvilftunum handan dalsins. Algengt í hörðum NA-vetrarveðrum, en fátítt annars. Þegar hvasst er af SV og V skellur vindurinn sér niður í dalverpi meðfram Kaldbak. Algengast með mildu lofti að haustlagi eða í vetrarhlákum fremur en útsynningi með éljum. Ekki algengt en hviðurnar skella þvert á veginn og eru varhugaverðar.

Neðri Breiðadalur (64)
NA-átt
Um 300 m kafli á Flateyrarvegi rétt utan við Neðri-Breiðadal. Sviptivindar standa niður brattan Breiðadalsstigann og þvert á veg. Bílar hafa oft fokið þarna út af.

Arnardalur (61)
S- og SSV-átt
Í hvassri S-átt koma snarpar hviður út Arnardalinn við vestanverða Kirkjubólshlíð á milli Ísafjaðar og Súðavíkur. Þetta er stuttur kafli, en hnútarnir eru þvert á akstursstefnuna. Ekki algengt og þá helst í verstu veðrum. Fok bíla hefur komið fyrir og slys orðið.

DEILA