Uppsagnir og breytingar gerðar á útibúaneti Olís

Olís í Bolungarvík

Fram kemur í Skessuhorni í dag að á næsta ári munu eiga sér stað miklar breytingar á skipulagi útibúanets Olíuverslunar Íslands, Olís, en starfsmönnum var tilkynnt um þetta fyrir síðustu mánaðamót.

Útibúin sem um ræðir eru á Akranesi, Ólafsvík, Bolungarvík, Grindavík, Reykjanesbæ, Selfossi, Vestmannaeyjum og Þorlákshöfn. Þá verða jafnframt gerðar breytingar á starfsemi verslunarinnar Rekstrarlands, sem rekin er í Reykjavík.

Skessuhorn hefur eftir Frosta Ólafssyni, sem er framkvæmdastjóri hjá Olís ,að „Þessi breyting á við um allt land, við höfum rekið nokkur af okkar útibúum með þessum hætti hingað til, til dæmis á Akureyri, Húsavík og Reyðarfirði og það hefur gefið góða raun. Þetta er í raun liður í stærri skipulagsbreytingu sem er að eiga sér stað á stórnotendasölu innan samstæðunnar Haga. Þannig er stefnt að því að setja upp nýja einingu innan Haga, en hún hefur starfsemi næsta vor þannig að þetta er ekki að gerast alveg strax. Þessi nýja eining kemur til með að taka yfir ákveðna vöruflokka sem hafa verið á forræði Olís hingað til, þ.e. hreinlætis, rekstrar- og heilbrigðisvörur. Við erum í raun að hefja undirbúning fyrir þessa breytingu með þessum aðgerðum.“

Frosti segir að þessum breytingum fylgi óumflýjanlega einhverjar uppsagnir. Breytingarnar verða misjafnar eftir einingum en hluti af starfsfólkinu færist yfir í þessa nýju einingu innan Haga þegar tilfærslan eigi sér stað.

DEILA