Súðbyrðingar á skrá UNESCO

Smíði og notkun súðbyrðinga, hefðbundinna norrænna trébáta, er komin á skrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) yfir óáþreifanlegan menningararf. Norðurlöndin stóðu saman að tilnefningunni sem samþykkt var á fundi Milliríkjanefndar um varðveislu menningarerfða í París í gær.

Skrá UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf mannkynsins er hliðstæð við hina þekktari Heimsminjaskrá UNESCO. Önnur skráin heldur utan um heimsminjastaði en hin um lifandi hefðir og menningarerfðir. Með skráningunni staðfestir alþjóðasamfélagið að viðkomandi menningararf beri að varðveita fyrir ókomnar kynslóðir.


Súðbyrðingur er sérstök norræn gerð báta, sem í tvö þúsund ár hefur skipt sköpum fyrir sjósókn Norðurlandanna. Súðbyrðingar geta verið margvíslegir eftir landssvæðum, en aðferðin við smíði þeirra er sú sama á Norðurlöndunum. Smíði þessara báta byggir á handverkshefð þar sem neðri brún fjalar leggst ofan á efri brún næstu fjalar fyrir neðan. Í upphafi voru borðin saumuð saman áður en trénaglar og síðar járn- og koparnaglar komu til sögunnar. Frá alda öðli hafa súðbyrðingar tengt saman samfélög stranda á milli, fært norrænar þjóðir út í heim og heiminn aftur til Norðurlandanna. Hefðin við smíði og notkun súðbyrðinga er meginþáttur strandmenningar okkar og er sameiginleg arfleifð Norðurlandanna.

DEILA