Seljalandsbúið, pólitískt bitbein stjórnmálaaflanna

Mynd Martinusar Simson ljósmyndara af Seljalandsbúinu á Ísafirði, tekin um miðjan 4. áratuginn.

Eitt af umbótaverkefnum Alþýðuflokksins í bæjarstjórn Ísafjarðar á 3. og 4. áratug 20. aldar, var að stofna kúabú til að sporna við mjólkurskortinum, ásamt háu verði mjólkur, sem hafði verið viðvarandi í bænum í áratugi. Árið 1926 var taugaveiki að ganga á svæðinu og var ótti um að hún gæti borist í mjólkina sem neytt var í bænum, sérstaklega á sjúkrahúsi bæjarins. Hætt var að selja mjólk frá tveimur kúabúum af þeim ástæðum.

Árið 1927 var  ákveðið að land bæjarins í Seljalandi og hálf jörð Tungu yrði tekin undir kúabú bæjarins og hafist var handa við byggingu fjóss og hlöðu sem lauk um haustið. Að þessum ráðagerðum stóð fremstur Vilmundur Jónsson læknir á Ísafirði og Alþýðuflokksmaður, síðar landlæknir. Ráðinn var bústjóri sem myndi sinna rekstri kúabúsins. Fyrsti bústjórinn var Jens Hólmgeirsson frá Önundarfirði, en hann var menntaður búfræðingur frá Bændaskólanum á Hvanneyri. Tún Seljalands og Tungu voru erfið til ræktunar og tók það talsverða vinnu bústjórans í nokkur ár að koma þeim í gott horf.

Jens Hólmgeirsson gegndi stöðu bústjóra til ársins 1935, en þá var hann ráðinn bæjarstjóri Ísafjarðarkaupstaðar. Halldór Jónmundsson var ráðinn í bústjóri í staðinn fyrir Jens, en Halldór gegndi stöðunni í eitt ár, eða til ársins 1936 þegar Skeggi Samúelsson tók við. Hann var á Seljalandsbúinu til ársins 1945, þá tók Agnar Jónsson við, en hann var jafnframt síðasti bústjóri Seljalandsbúsins því árið 1951 var ákveðið að bærinn myndi hætta búrekstri sínum á Seljalandsbúi og einnig á Kirkjubóli.  Búféð var selt og jarðirnar leigðar út. Agnar Jónsson keypti búféð á Seljalandsbúinu og bjó þar áfram sem bóndi í sjálfstæðum rekstri.

Seljalandsbúið var alla tíð pólitískt bitbein Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks í bænum. Sjálfstæðismenn settu út á kostnað búsins, bæði við uppsetningu þess og uppihald. Þeir vildu meina að skattkostnaður bæjarbúa hafi hækkað við tilurð búsins og að kostnaðurinn vægi þyngra en ávinningurinn. Þeir gagnrýndu Alþýðuflokkinn fyrir þessa „þjóðfélagslegu tilraun“ sem þeir töldu búskapinn vera og álitu að betra væri að leigja búið undir sjálfstæðan rekstur og leyfa einstaklingsframtakinu að njóta sín frekar en að stunda vera með kostnaðarsaman opinberan rekstur.

Á hinn bóginn héldu Alþýðuflokksmenn því fram að þeir hafi með Seljalandsbúinu leyst mjólkurvandann á Ísafirði og mjólkurverð hafi lækkað talsvert og sögðu Sjálfstæðisflokkinn fara frjálslega með staðreyndir.

Þegar búið var lagt niður árið 1951 var mjólkurvandinn talinn leystur, bæði með aukinni framleiðslu og framboði á svæðinu, sem og betri samgöngum á Vestfjörðum.

Af vefsíðu Héraðsskjalasafns Ísafjarðar í tilefni af norræna skjaladeginum sem var 13. nóvember

DEILA