Ort um sjóvarnir

Starfsmenn Vegagerðarinnar taka gjarnan við ábendingum um það sem miður fer eða kvörtunum frá almenningi. En það koma líka oft kveðjur með þakklæti fyrir vel unnin störf þótt það sé sjaldnast að það sé í bundnu máli. Gísli Gíslason fyrrverandi formaður Hafnasambandsins gerði það þó nýlega vegna ánægju með sjóvarnir sem unnið verður að á næsta ári. 

Forsaga kveðskaparins er sú að Gísli Gíslason fyrrverandi formaður Hafnasambandsins spurði út í sjóvarnir vegna Sólmundarhöfða í nágrenni Akraness, eða nánar Höfðagrund sem liggur að Leyni. Hann sem fyrrverandi formaður Hafnarsambandsins hafði verið sendur af stað með erindi vegna sjóvarna á því svæði. Fannar Gíslason forstöðumaður hafnadeildar gat svarað því til að þetta verkefni væri á áætlun næsta vor eða sumar og fljótlega myndu menn birtast á svæðinu að fara yfir aðstæður. 

Það var ekki að spyrja að því að eðlilega var Gísli ánægður með þau svör og sendi þennan bálk til baka: 

Í samgönguáætlun útlistað er
hvar efla skal sjóvarnargarða,
Því Ægir um ströndina offari fer
og atlögu gerir þar harða.

Á Sólmundarhöfða, þeim heillandi stað,
hvar hafaldan leikur um hleina,
býr  aumingja fólkið, sem Alþingi bað
um aðstoð og örfáa steina. 

Og þakklátt var fólkið er viðbrögðin skjót
frá Vegagerð ríkisins bárust:
“Þið fáið sko ljómandi landvarnar grjót
í landrof hvar neyðin er sárust.” 

Nú vafalaust hyllir í vandasamt verk,
sem varnir gegn Ægi mun þétta,
en forvitnin alltaf er ferlega sterk
og fólkið spyr hvað sé að frétta?! 

Er verktakar birtast með tæki og tól
skal teiti upp slegið þann daginn.
Með grjótkveðju segi ég gleðileg jól
og gangi þér allt í haginn!

DEILA