Opið fyrir umsóknir um skráningu í almannaheillaskrá

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um skráningu í almannaheillaskrá Skattsins. Skráningin er ætluð óhagnaðardrifnum félögum sem í megindráttum reka ekki atvinnustarfsemi.

Gjafir og framlög til almannaheillafélaga, upp að tilteknu marki, sem hafa fengið staðfesta skráningu á almannaheillaskrá, koma til lækkunar á tekjuskatts- og útsvarsstofni hjá einstaklingum og til frádráttar rekstrartekjum rekstraraðila.

Frádráttur einstaklinga getur verið á bilinu 10 – 350 þús. kr. á almanaksári, hjóna og sambúðarfólks alls 700 þús. kr. og kemur til lækkunar á útsvars- og tekjuskattsstofni.

Listi yfir viðurkennda lögaðila hvers árs verður birtur á heimasíðu Skattsins.

DEILA