Myndband um lagningu klæðingar í Tálknafirði

Borgarverk að störfum í Tálknafirði haustið 2021.

Margir rugla saman malbiki og klæðingu, en það er sitt hvor hluturinn. Bæði eru þó svokölluð bundin slitlög en llæðingar eru 90% bundinna slitlaga á Íslandi .

Vegagerðin hefur látið útbúa myndband sem sýnir á skemmtilegan hátt hvernig klæðing er lögð á veg. Þar er fylgst með klæðingaflokki Borgarverks að störfum í Tálknafirði haustið 2021 þar sem verið var að klæða nýjan veg niður að Miklagili.

Í myndbandinu er útskýrt hvað klæðing er og hvernig útlagningaferlið fer fram. Rætt er við Bjarka Hlífar Stefánsson verkstjóra hjá Borgarverki, Hrafn Erlingsson  dreifarastjóra, Guðmund Óla K. Lyngmo eftirlitsmann Vegagerðarinnar og Ágúst Vilberg Jóhannsson tjörubílstjóra.

Klæðing er bundið slitlag rétt eins og malbik en notað á umferðarminni vegi. Malbik er lagt á umferðarþunga vegi enda þolir það þyngri umferð og meira álag en klæðing. Malbik er hins vegar tiltölulega dýrt efni meðan klæðing er ódýrt bundið slitlag.

Leggja má þrisvar til fimm sinnum fleiri km af klæðingu miðað við malbik og því hagkvæm leið til að koma bundnu slitlagi á umferðarminni vegi.

Í myndbandinu útskýrir Bjarki verkstjóri ferlið við útlagningu klæðingar. Byrjað er á því að sprauta út tjöru sem kemur um 140 gráðu heitt úr tjörubílnum. Malardreifari dreifir steinefni yfir veginn. Síðan er efninu valtað ofan í tjöruna til þess að fá bindingu. Eftir um sólarhring er umframsteinefni sópað af klæðingunni. Lögð eru tvö lög af klæðingu. Fyrra lagið er með grófara efni, en í seinna laginu er fínna efni sett ofan á.

Eftirlit er haft með hverju verki. Guðmundur Óli, eftirlitsmaður hjá Vegagerðinni útskýrir að eftirlitið felist helst í því að fylgjast með lofthitanum, yfirborðshita á vegi, hita í klæðingarefninu, tjörunni og hitanum á tjörunni í bílnum. Hann segir  mikilvægt að hitinn sé nægjanlega góður sérstaklega þegar tíðarfarið er kalt.  

Vegakerfið á Íslandi er 13.000 km en af því eru um 5.800 km með bundnu slitlagi, klæðingu og malbiki. 98% aksturs á Íslandi er á bundnu slitlagi en klæðingar eru 90% allra bundinna slitlaga á landinu.

DEILA